139. löggjafarþing — 143. fundur,  7. júní 2011.

gjaldeyrismál og tollalög.

788. mál
[16:23]
Horfa

Baldur Þórhallsson (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég verð því miður að segja að ég held að Alþingi Íslendinga sé á villigötum. Hér er verið að fjalla um afnám gjaldeyrishafta. Ég held að það væri miklu nær að ræða um framtíðarskipan peningamála í landinu og hvernig við ætlum í raun að komast út úr því að vera með ónýtan gjaldmiðil sem gagnast okkur ekki og leiðir eingöngu til hærri vaxta, meiri verðbólgu, verri lífskjara o.s.frv.

Það er mjög brýnt að Alþingi ræði ítarlega framtíðarskipan peningamála í landinu og að samninganefnd Íslands við Evrópusambandið fái skýr skilaboð um að hún verði að semja við Evrópusambandið um afnám gjaldeyrishaftanna og leggja línurnar um hvernig hægt sé að taka upp evru innan Evrópusambandsins. Upptaka evru skilar okkur lægri vöxtum, lægri verðbólgu, lægra vöruverði, mun meiri viðskiptum við útlönd og launin okkar verða einhvers virði þegar við erum erlendis.