139. löggjafarþing — 143. fundur,  7. júní 2011.

gjaldeyrismál og tollalög.

788. mál
[16:24]
Horfa

Frsm. meiri hluta efh.- og skattn. (Helgi Hjörvar) (Sf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég fagna þessu andsvari og því að peningastefnan sé tekin á dagskrá. Auðvitað er það ákveðið stjórntæki að hafa sinn eigin lögeyri en það að Íslendingar „ráði sjálfir sínum lögeyri“ hefur bæði kosti og galla. Ég held að það sé rétt hjá hv. þingmanni að það sé óhjákvæmilegt að leggja mat á hvort það hafi haft fleiri kosti en galla á lýðveldistímanum að hafa þetta stjórntæki, hvort okkur hafi almennt tekist að hafa stjórn á gjaldeyrismálum okkar og hvort sú staða að við treystum okkur ekki til að eiga í frjálsum viðskiptum með lögeyri okkar endurspegli ekki að þetta hafi misheppnast og þeirri tilraun sé nú lokið og við verðum að leita annarra leiða í gjaldeyrismálum og þá er evran nærtækasta leiðin, eins og hv. þingmaður benti réttilega á.