139. löggjafarþing — 143. fundur,  7. júní 2011.

gjaldeyrismál og tollalög.

788. mál
[17:23]
Horfa

Baldur Þórhallsson (Sf) (andsvar):

Hv. þingmaður vísar hér í þann vanda sem Grikkir og Portúgalar og fleiri þjóðir Evrópusambandsins glíma við. Okkar vandi er eigi minni og ef eitthvað er jafnvel alvarlegri, og ekki hefur krónan hjálpað okkur þar. Mér finnst einfaldlega skorta á það að við ræðum hér um framtíðarskipan peningamála eins og ég kom inn á áðan, að við ræðum um raunverulegar lausnir á þeim vanda sem við glímum við. Við erum í rauninni að setja plástur á svöðusár. Við verðum að finna varanlega lausn á þessu máli. Þess vegna vil ég hvetja stjórnarandstöðuna og mig langar að spyrja hv. þingmann: Hvers vegna stendur Sjálfstæðisflokkurinn og hv. þingmaður ekki með ríkisstjórninni í því að kanna hvort Seðlabanki Evrópu er tilbúinn að standa með okkur að afnámi gjaldeyrishafta?