139. löggjafarþing — 143. fundur,  7. júní 2011.

gjaldeyrismál og tollalög.

788. mál
[17:25]
Horfa

Frsm. 3. minni hluta efh.- og skattn. (Tryggvi Þór Herbertsson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ef hér yrði tekið upp fast gengi, evra, á morgun með stuðningi Seðlabanka Evrópu og ekki væri búið að leysa öll þau hagstjórnarvandamál sem þarf að leysa, undirliggjandi hagstjórnarvandamál, er algjörlega ljóst hvernig færi fyrir okkur. Það mundi fara fyrir okkur nákvæmlega eins og við höfum séð t.d. á Írlandi. Þar eru mjög svipuð vandamál, undirliggjandi hagstjórnarvandamál, nema Írar eru með aðra peningastefnu.

Svo vil ég benda hv. þingmanni á að í mjög viðamikilli greinargerð, þingsályktunartillögu og greinargerð, lögðum við sjálfstæðismenn fyrir nokkrum mánuðum til hvernig hægt væri að haga hagstjórnarskipan á Íslandi til að geta stutt við nákvæmlega þennan gjaldmiðil þannig að hann geti þjónað okkur.

Hitt skal ég aftur á móti viðurkenna og lýsa glaður yfir, eins og ég hef gert síðustu 15 ár, að það eru tveir kostir fyrir Ísland, (Forseti hringir.) annaðhvort að vera með krónuna og alvöruhagstjórn eða að vera með evruna (Forseti hringir.) og aðild að evrópska seðlabankanum.