139. löggjafarþing — 143. fundur,  7. júní 2011.

gjaldeyrismál og tollalög.

788. mál
[18:05]
Horfa

Ásbjörn Óttarsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vil byrja á því að þakka hv. þm. Lilju Mósesdóttur fyrir ræðuna og gott nefndarálit.

Hv. þingmaður rifjaði upp í ræðu sinni þær hugmyndir sem hún setti fram í árslok 2008 um að fara þá leið að skattleggja útgreiðslurnar á svokölluðum aflandskrónum. Hv. þingmaður sagði í ræðu sinni að hún hefði nefnt í kringum 30% skatt í upphafi, en kannski væri erfitt að setja fram ákveðna tölu því að menn vissu ekki hve há hún þyrfti að vera. Nú vill svo til að einmitt í þessu litla útboði í dag, þessu 15 milljarða útboði, er það í kringum núverandi gengi og það sem selt var í dag er nokkuð nærri þeirri tölu sem hv. þingmaður setti fram.

Í ljósi þessa langar mig að spyrja hv. þingmann og óska sérstaklega eftir hennar áliti á því að alltaf er talað um að raungengið sé svona 20–25% of lágt — það eru tölurnar sem maður heyrir. Ef menn færu hugsanlega þá leið sem hv. þingmaður nefnir og hefur talað fyrir í töluverðan tíma, sem ég tel mjög athyglisverða og mikilvægt að við tökum umræðuna um, bæði kosti og galla, gæti þetta litla uppboð sem var í dag hjá Seðlabankanum verið vísbending um það sem er í vændum? Ef raungengið er svona lágt eins og margir telja — reyndar kom fram hjá einum ágætum gesti á fundi fjárlaganefndar í morgun að hann varaði við því að menn gengju út frá því að raungengið væri svona lágt og að hann teldi það bara nokkuð nærri lagi — hvað gæti þá hindrað það ef við færum skattlagningarleiðina, sem hv. þingmaður talar fyrir og ætti að styrkja raungengið, að hún flýtti fyrir því að féð færi úr landi? Hver er skoðun hv. þingmanns á því? Ég er kannski fyrst og fremst að fiska eftir (Forseti hringir.) skoðun hennar á raungenginu, hvort það sé (Forseti hringir.) svona lágt.