139. löggjafarþing — 143. fundur,  7. júní 2011.

gjaldeyrismál og tollalög.

788. mál
[18:50]
Horfa

Frsm. 2. minni hluta efh.- og skattn. (Birkir Jón Jónsson) (F) (andsvar):

Frú forseti. Ég tók það einmitt skýrt fram varðandi þau fáránlegu atriði sem ég taldi upp og eru í frumvarpinu sem ríkisstjórnin lagði fram og stjórnarflokkarnir sömdu, að gerð hefði verið ákveðin breyting sem væri meiri hlutanum til hróss. En aðalnálgun mín, og ég vil fá skoðun hv. þingmanns á henni, er sú að ég tel að það eigi ekki að lögfesta þessar reglur. Ég tel að við eigum ekki að senda þau skilaboð að gjaldeyrishöft verði við lýði fram að 31. desember árið 2015. Við sendum með því röng skilaboð og ég vil minna hv. þingmann á að fulltrúar Seðlabankans sögðu á fundi nefndarinnar að það væri ekkert sérstakt forgangsmál af þeirra hálfu að reglurnar yrðu settar í lög. Ég skil ekki hvaða þrýstingur er hjá stjórnarflokkunum á að reyna að koma þessu máli í gegn nú á vorþingi.