139. löggjafarþing — 143. fundur,  7. júní 2011.

gjaldeyrismál og tollalög.

788. mál
[20:59]
Horfa

Birgir Ármannsson (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég vil þakka hv. þm. Vigdísi Hauksdóttur fyrir hennar ágætu ræðu. Það eru nokkur atriði sem vöktu athygli mína en ég verð þó að takmarka mig við eitt atriði.

Raunar kom hún inn á það í svörum við andsvörum hv. þm. Ásbjörns Óttarssonar rétt í þessu en það var einmitt þetta með hraðlestina til Brussel þar sem Samfylkingin er í stýrishúsinu en svo einkennilega vill til að stór hluti Vinstri grænna er í vélarrúminu að kynda til að tryggja að ekki verði hik á ferðinni. Ég vil spyrja hana aðeins um tengslin milli þessa máls og aðildarumsóknarinnar að Evrópusambandinu. Því sjónarmiði hefur oft verið hreyft af hálfu talsmanna Samfylkingarinnar, ekki síst hæstv. ráðherra, að þangað til, eins og hann orðaði það, við tökum upp evru þá verðum við með einhver höft á krónunni.

Ég er að velta fyrir mér þeirri tímasetningu sem er að finna í frumvarpinu, þ.e. þegar markið er sett fjögur ár fram í tímann, að gildistíminn sé til ársloka 2015. Telur hv. þingmaður að þarna séu tengsl á milli og að hugsanlega sé þessi langi gildistími gjaldeyrishaftanna miðaður við áform Samfylkingarinnar um inngöngu okkar í Evrópusambandið og upptöku evrunnar — jafnvel þó ég sé þeirrar skoðunar og mjög margir að þótt við gengjum í Evrópusambandið gætum við ekki tekið upp evruna 2015. Það er önnur saga.

Ég velti því fyrir mér hvort þetta kunni ekki að vera skýringin á því hvernig þetta mál er úr garði gert.