139. löggjafarþing — 143. fundur,  7. júní 2011.

gjaldeyrismál og tollalög.

788. mál
[21:06]
Horfa

Frsm. 3. minni hluta efh.- og skattn. (Tryggvi Þór Herbertsson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vil byrja á að þakka hv. þm. Vigdísi Hauksdóttur fyrir ágæta ræðu. Yfirleitt er maður ekki svikinn af því að hlusta á ræður hennar. Hún hefur þann kost, sem mjög margir í þinginu mættu hafa, að reyna að hugsa út fyrir boxið þegar hún talar um hlutina. Það er mjög gott. Stundum þarf maður að taka sénsa þegar maður gerir það en oft koma líka mjög góðir hlutir út úr því. Það er til fyrirmyndar að hún skuli nota þessa aðferð.

Mig langaði til að fylgja aðeins eftir fyrirspurn eða andsvari hv. þingmanns. Hvernig má það vera að hér er viðskipta- og efnahagsráðherra sem telur heiminum trú um að Ísland geti ekki staðið á eigin fótum hvað varðar sjálfstæðan gjaldmiðil, talar um að krónan sé ónýt og annað slíkt og að taka verði upp evru? Á sama tíma leggur hann fram frumvarp um að festa gjaldeyrishöft í sessi og talar í þriðja lagi um að við þurfum að komast inn í Evrópusambandið til að fá evruna. Ef maður setur þessa þríliðu saman er þingmaðurinn þá þeirrar skoðunar að þetta sífellda tal um að krónan sé ónýt sé til þess ætlað að viðhalda gjaldeyrishöftunum svo að hægt sé að hræða þjóðina inn í Evrópusambandið til að fá evruna?