139. löggjafarþing — 143. fundur,  7. júní 2011.

gjaldeyrismál og tollalög.

788. mál
[21:42]
Horfa

Birgir Ármannsson (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Nú spyr hv. þingmaður mig um hluti sem ég get ekki svarað. Ég hef engar upplýsingar sem gefa mér til kynna að neinn afsláttur verði veittur af Maastricht-skilyrðunum eða á upptöku evrunnar þó að breytingar verði gerðar á stofnsáttmálum Evrópusambandsins eins og hún vék að í máli sínu. Ég hef ekki trú á því. Ef aðrir hv. þingmenn þekkja þau mál betur er ég tilbúinn að hlusta á það en ég hef enga ástæðu til þess að ætla að svo sé. Ég verð að láta það nægja sem svar við þessari spurningu.

Hins vegar vildi ég segja það almennt, af því að við hv. þingmaður erum sammála um að Maastricht-skilyrðin sem slík séu jákvæð markmið, að ég og hv. þingmaður getum líka verið sammála um að æskilegt sé að (Forseti hringir.) losna við núverandi ríkisstjórn þannig að unnt sé að uppfylla þessi markmið eins fljótt og unnt er. (Gripið fram í: Heyr, heyr!)