139. löggjafarþing — 143. fundur,  7. júní 2011.

gjaldeyrismál og tollalög.

788. mál
[22:31]
Horfa

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson (F) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég mundi gjarnan vilja spyrja hv. þingmann nánar út í eitt sem hann impraði reyndar aðeins á í prýðisgóðri ræðu sinni en það er spillingin, spillingarhættan sem fylgir svona höftum þegar stjórnvöld, embættismenn og stjórnmálamenn eru komnir með vald til þess að taka ákvörðun um hver fær eftirsótt gæði. Er ekki hætta á því að þegar slík staða er uppi, þegar menn eiga svona mikið undir embættismönnum, að það setji í fyrsta lagi embættismenn og stjórnmálamenn í þá stöðu að verðlauna bandamenn sína, en einnig að það skapi hræðslu? Af því að sá sem á mikið undir því að fá að kaupa gjaldeyri er ekki líklegur til að gagnrýna þau sömu stjórnvöld og taka ákvörðun um hvort hann fær að kaupa gjaldeyri, t.d. Seðlabanki Íslands. Er þetta ekki mikil samfélagsleg hætta?