139. löggjafarþing — 143. fundur,  7. júní 2011.

gjaldeyrismál og tollalög.

788. mál
[23:09]
Horfa

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson (F) (andsvar):

Virðulegur forseti. Já, austur-þýska eftirlitinu voru greinilega fá takmörk sett og kannski enn þá eitthvað í mark fyrir íslensk stjórnvöld þó að auðvitað sé rétt að láta þess getið að menn beita ekki og munu ekki beita því ofbeldi sem beitt var í Austur-Þýskalandi.

Þegar hv. þingmaður rakti ferðasögu tengdaforeldra sinna rifjaðist upp fyrir mér enn ein samsvörunin vegna þess að hér á landi má ekki mikið tala um ástandið í Evrópu. Ef maður fer til útlanda verður maður í öllum fréttatímum var við efnahagslega krísu, neyðarástand í Evrópu og að menn viti ekki hvernig þetta endi. Hér er ekki mikið talað um það. Í Austur-Þýskalandi voru menn verndaðir fyrir umhverfinu á sambærilegan hátt. Þannig var okkur sagt þegar við fórum yfir landamærin að það mætti ekki taka erlend dagblöð með og sérstaklega lágu ströng viðurlög við því ef menn fóru úr bílnum og skildu erlent dagblað eftir í bílnum þannig að það væri hægt að lesa fyrirsagnir í gegnum bílrúðuna. (Forseti hringir.) Nú er orðið miklu erfiðara að annast slíkt eftirlit vegna þess að menn geta farið á netið og komist að (Forseti hringir.) því hvað er að gerast í umheiminum. (Gripið fram í.)