139. löggjafarþing — 143. fundur,  7. júní 2011.

gjaldeyrismál og tollalög.

788. mál
[23:25]
Horfa

Sigurður Kári Kristjánsson (S) (um fundarstjórn):

Virðulegi forseti. Það væri upplýsandi ef hæstv. forseti gæti upplýst okkur um það hvort stjórnarráðsmálið verði á dagskrá á morgun eða hinn daginn. Ég er að fara á fund í allsherjarnefnd klukkan 11.30 í fyrramálið þar sem þetta ágæta mál verður á dagskrá og ég geri ráð fyrir því að ætlun formannsins og Samfylkingarinnar sé að afgreiða það út úr nefndinni, þá gegn vilja Vinstri grænna og einhverra annarra.

Ég tek síðan undir það með þeim hv. þingmönnum sem hér hafa gert athugasemdir við það að hæstv. forsætisráðherra og hæstv. fjármálaráðherra séu ekki við umræðuna, sérstaklega í ljósi þeirra sjónarmiða að með þessari austur-þýsku leið sé verið að innleiða stærstu efnahagsmistök sögunnar. Það virðist vera orðin viðtekin venja að þegar stór mál eru hér til umfjöllunar, stór stjórnarfrumvörp eins og til dæmis frumvarpið um stjórn fiskveiða, sjáist alltaf (Forseti hringir.) í iljarnar á leiðtogum ríkisstjórnarinnar. (Forseti hringir.) Þeir taka ekki þátt í umræðunni og eru ekki viðstaddir en eru síðan (Forseti hringir.) með einhverjar heitstrengingar í fjölmiðlum um að það verði að klára málin. Þetta fólk (Forseti hringir.) verður að koma hingað og standa fyrir máli sínu.