139. löggjafarþing — 143. fundur,  7. júní 2011.

gjaldeyrismál og tollalög.

788. mál
[23:29]
Horfa

Frsm. meiri hluta efh.- og skattn. (Helgi Hjörvar) (Sf) (um fundarstjórn):

Virðulegur forseti. Það má nú um þetta segja að „kveldúlfur sé kominn í kerlinguna mína“ þegar stjórnarandstaðan getur ekki lengur haldið uppi málflutningi í ræðustóli fyrir innibyrgðum hlátrasköllum. Ég held að allra hluta vegna sé rétt að láta þessari umræðu um fundarstjórn forseta lokið og snúa sér að þeirri efnisumræðu sem er á dagskrá. Kannski er vert að þingmenn velti því aðeins fyrir sér hvort við viljum vera á þeim stað í umræðunni að færa fram líkingar við einræðisríki og ógnarstjórnir sem setið hafa í þessari álfu og öðrum og kallað óheyrilegar skelfingar yfir þann almenning sem þar hefur búið meðan við erum í því lýðræðislega velferðarríki sem við erum þó svo lánsöm að byggja. Ég held ekki að það sé umræðunni með nokkrum hætti til framdráttar og hvet til þess að við höldum okkur við það að ræða um (Forseti hringir.) veruleika okkar og samfélag á ögn efnislegri nótum en hefur verið hér síðustu klukkustundina eða svo.