139. löggjafarþing — 144. fundur,  8. júní 2011.

stuðningur Íslands við aðgerðir Nató í Líbíu.

[12:30]
Horfa

Bjarni Benediktsson (S):

Frú forseti. Það hefði verið mjög hollt fyrir marga þingmenn sem ekki sátu fund utanríkismálanefndar með talsmanni uppreisnarmanna í Líbíu að hlýða á hans mál. Hv. formaður utanríkismálanefndar vék að því sem þar kom fram og það var afar lærdómsríkt að fá það sjónarhorn sem þar birtist. Til dæmis þann augljósa sannleik, sem skein úr hverju orði þessa manns og úr augum hans, að það er ekki um neitt að semja við menn eins og Gaddafí. Stefna Vinstri grænna, um að leita friðsamlegrar lausnar við mann sem hefur afnumið stjórnarskrá í landinu, tekið úr sambandi öll lög og allan rétt, dómstólana, skipað leynisveitir, afnumið ritfrelsi og ræðst á eigin borgara; við slíkan mann er ekki hægt að setjast niður og semja í friðsamlegum viðræðum. Það er ekki þannig.

Það hefði líka verið fróðlegt fyrir viðkomandi þingmenn að hlýða á það þegar gesturinn lýsti því þegar skriðdrekalest Gaddafís var á leið inn í borgina og herir NATO komu og stöðvuðu þá og björguðu þannig þúsundum mannslífa, þegar stjórnvöld í Líbíu ætluðu að fara að murka lífið úr eigin borgurum með því að láta rigna yfir þá kúlum og sprengibrotum. Þetta er það sem var að gerast á vettvangi NATO, að stöðva slíka innrás og árás stjórnarherranna í Líbíu gegn eigin borgurum. Samt koma Vinstri grænir vitandi allt þetta inn í þess umræðu og segja: Við erum á móti þessu öllu saman. Við erum á móti.

Samanburðurinn við Írak er sjálfsagður og augljós; í Íraksmálinu var haft samráð. Þá kom hv. núverandi utanríkisráðherra og hvatti þáverandi utanríkisráðherra til að aflétta öllum upplýsingum um samráð við utanríkismálanefnd. Ég ætla að skora á hv. utanríkisráðherra að aflétta öllum trúnaði af samráði við utanríkismálanefnd í þessu máli, vegna þess að því hefur verið haldið fram að samráðið hafi ekki verið haft við (Forseti hringir.) þingið í upphafi þessa máls. Sá er grundvallarmunurinn í þessu máli og Íraksmálinu að hér var það í höndum Íslands að stöðva (Forseti hringir.) upphaf málsins. En breytt afstaða í Íraksmálinu hefði á endanum engu skipt.