139. löggjafarþing — 144. fundur,  8. júní 2011.

afgreiðsla frumvarps um stjórn fiskveiða.

[12:51]
Horfa

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir (S):

Herra forseti. Hæstv. sjávarútvegsráðherra óskaði eftir að fá málið í nefnd til að fá umræðu um það, til að reyna að ná sátt um það. Hefur þessi mikla umræða orðið í nefndinni? Nei. Meira að segja stjórnarþingmenn staðfesta það. Er sátt um málið eins og það er núna? Nei, nei, engin sátt. Hefur verið reynt að ná einhverri sátt? Nei, síður en svo. Mælir einhver með því af öllum þeim umsagnaraðilum sem hafa sent nefndinni umsagnir sínar? Nei, ekki einn einasti. Hefur verið orðið við ósk okkar í stjórnarandstöðunni í umræðunni um þetta mál og einnig hitt sem kallað er stóra málið að fá að ræða við forsætisráðherra sem sést hér á vappi í þinghúsinu en sýnir sig ekki í umræðu um þessi mál í þingsal, eða hæstv. fjármálaráðherra? Nei. (Gripið fram í: Hvað með sjávarútvegsráðherra?)

Menn vita að það er ekki hægt að ræða þessi mál af því að þau eru handónýt og þó að hæstv. utanríkisráðherra (Forseti hringir.) tali digurbarkalega um að reyna að ná sátt er enginn vilji til þess. Það er enginn vilji af hálfu forustumanna stjórnarflokkanna til að ná sátt í þessum málum.