139. löggjafarþing — 144. fundur,  8. júní 2011.

ábendingar Ríkisendurskoðunar um mannauðsstjórnun.

616. mál
[15:46]
Horfa

fjármálaráðherra (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg):

Frú forseti. Ég hef svo sem ekki miklu við fyrri svör mín að bæta um aðhald hvað varðar meðferð fjármuna. Það að stofnanir haldi sig innan ramma fjárlaga getur vissulega verið einn af þeim þáttum sem hér heyra undir þegar spurningin er um stöðu manna gagnvart lögum um réttindi og skyldur, þar með talið auðvitað mögulegar áminningar ef tilefni er til slíks. Ég hygg þó að það séu ekkert síður önnur mál, mál af öðrum toga sem oft og tíðum verða erfiðari úrlausnar og hafi oftar gefið tilefni til þess að áminningar hafi komið til skoðunar heldur en endilega fjárhagsleg mál.

Á seinni árum hefur með ágætum árangri í mörgum tilvikum verið meira beitt þeirri reglu að setja tilsjónarmenn með rekstri þar sem þörf hefur verið fyrir slíkt. Segja má að í því sé fólgin viss tegund aðvörunar til viðkomandi stofnunar að er ekki settur inn tilsjónarmaður sem tekur yfir tiltekna rekstrarlega ábyrgð nema ástæða sé til, en það má kannski kalla mildari aðferð. En aðalatriðið er þó að það hefur skilað ágætisárangri í mörgum tilvikum sem ég þekki til og hef fylgst með.

Sem betur fer hefur þeim liðum fækkað mjög umtalsvert þar sem um framúrkeyrslu umfram viðmiðunarmörk er að ræða. Fækkað hefur árlega núna tvö ár í röð á listum yfir stofnanir sem eru á svokölluðum athugunarlista eða eftirlitslista fjármálaráðuneytisins og um leið og hefur fækkað á listanum sem slíkum hafa fleiri stofnanir á listanum náð að halda sig innan ramma fjárlaga. Þróunin hefur því verið tvímælalaust í rétta átt. Má segja að það sé mjög lofsvert og sýnir mikinn samstarfsvilja og mikla ábyrgð forstöðumanna sem tekist hafa á við þetta erfiða rekstrarumhverfi og niðurskurð en engu að síður náð í ríkari mæli en áður að halda rekstri innan ramma fjárlaga.

Varðandi lögin um réttindi og skyldur er hafinn undirbúningur að endurskoðun. Nú eru ágætar aðstæður til þess, skulum við vona, ef þriggja ára kjarasamningar eru meira og minna að nást (Forseti hringir.) yfir vinnumarkaðinn, þar með talinn opinbera vinnumarkaðinn, þá er góður tími til þess að vinna einmitt að slíkum hlutum.