139. löggjafarþing — 144. fundur,  8. júní 2011.

eitt innheimtuumdæmi.

744. mál
[15:55]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S):

Herra forseti. Hér er varpað fram mjög mikilvægri spurningu og ég held að ef vilji er fyrir hendi hjá hæstv. ríkisstjórn og stjórnvöldum sé alveg hægt að flytja starfsemi út á land þó um sameiningu sé að ræða.

Ég ætla að ræða um annað sem er mismunandi meðhöndlun hjá sýslumönnum. Það hefur jafnvel leitt til þess að menn hafa flutt vörurnar á aðra höfn en eðlilegt væri til að fá þægilegri afgreiðslu. Þegar innheimta á svona gjöld þarf að skoða vörurnar mismunandi mikið og menn taka stikkprufur og það er spurning hvað menn taka stikkprufurnar títt og hvað þeir eru nákvæmir í allri skoðun. Mér hefur verið sagt að þetta sé dálítið mismunandi eftir embættum og að innflytjendur láti jafnvel vörurnar fara til þeirra sýslumanna sem eru þægilegri í þessari vinnslu en aðrir og það finnst mér ekki gott.