139. löggjafarþing — 146. fundur,  9. júní 2011.

stofnun hlutafélaga um vegaframkvæmdir.

789. mál
[10:49]
Horfa

Frsm. samgn. (Björn Valur Gíslason) (Vg) (andsvar):

Virðulegu forseti. Ég mundi nú hvetja þingmenn Sjálfstæðisflokksins til að undirbúa málþóf sitt betur en hér er gert, því að hér er verið að ræða um allt annað mál. Hv. þm. Pétur Blöndal er að ræða um allt annað mál en er til umræðu. Til umræðu er frumvarp um breytingar á lögum til að heimila eignarnám samkvæmt framkvæmdum sem voru ákveðnar á þinginu síðasta sumar. Ekki er verið að ræða um vegaframkvæmdir. Ekki er verið að ræða um nýjar framkvæmdir með neinum hætti.

Hv. þingmaður spyr mig hvort það sé mín heimsmynd að það sé ekki lengur hlutverk ríkisins að sjá um vegakerfið og leggja vegi um landið. Sú heimsmynd er ekki mín. Sú heimsmynd er hins vegar hv. þingmanns sem spurði þessarar spurningar. En það er afleiðing þeirrar heimsmyndar og hvernig henni var hrint í framkvæmd sem neyðir okkur til að fara þá leið sem hér var farin, vegna þess að ríkissjóður er ekki í stakk búinn til að fara í vegaframkvæmdir eins og ríkinu ber að gera og ríkið á að gera og á að vera hlutverk ríkisins. Þannig er nú komið fyrir íslenska ríkinu í dag og menn geta síðan velt því fyrir sér hvers vegna svo er.

Hér er verið að ræða frumvarp, breytingar á lögum, frumvarp sem snýr að eignarnámsheimild og engu öðru. Ég hef ekki heyrt það, það hefur þá farið fram hjá mér, ég reyndi að punkta helstu atriði í andsvari hv. þingmanns niður á blað hjá mér, en hann hefur ekki enn þá nefnt þetta frumvarp á nafn sem þó er hér til umræðu. Ég hvet því hv. þingmann til að fara hér í ræðu á eftir og ræða um málið sem er á dagskrá og hvet forseta líka til að sjá til þess að menn ræði dagskrárliðina en ekki annað.