139. löggjafarþing — 147. fundur,  9. júní 2011.

losun gróðurhúsalofttegunda.

710. mál
[14:35]
Horfa

Frsm. meiri hluta umhvn. (Álfheiður Ingadóttir) (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Það er vissulega rétt að það kerfi sem hér um ræðir er að því leyti spegilmynd íslenska kvótakerfisins í fiskveiðum að þarna á að úthluta ókeypis kvóta allt að 85% miðað við losun viðkomandi fyrirtækis og lands á þarsíðasta almanaksári. Þannig var fiskveiðiheimildunum úthlutað hér ókeypis á grunni veiðireynslu á sínum tíma og við erum enn að glíma við afleiðingar þess.

Þetta kerfi er hins vegar sett upp til þess fyrst og fremst að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda á sem hagkvæmastan hátt fyrir fyrirtækin. Það gerir í reynd ráð fyrir því að fyrst sé skipt yfir í loftslagsvænni tækni og þar með dregið úr losun í þeim geirum þar sem það er ódýrast og svo koll af kolli.

Það er rétt sem hv. þingmaður segir, þetta mun eflaust leggjast með einhverjum hætti ofan á verð flugmiða í almennu farþegaflugi sem er mjög stór hluti af losun flugrekstrar á gróðurhúsalofttegundum. En á það verður að líta að þar er í reynd um að ræða herkostnað við nauðsynlegan samdrátt í gróðurhúsalofttegundum.

Ég get verið þingmanninum sammála um að ég tel ekki að það eigi að undanþiggja með þeim hætti sem gert er í tilskipuninni herflug, eða sérflug eins og ég vil kalla það. Aðalatriðið er samt að íslenskir flugrekendur geti setið við sama borð og evrópskir flugrekendur og því er brýnt að samþykkja þetta frumvarp.