139. löggjafarþing — 147. fundur,  9. júní 2011.

losun gróðurhúsalofttegunda.

710. mál
[14:45]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir ágæta framsögu í málinu. Ég ræddi það við 1. umr. að þetta er gífurlega mikið mál og sem markaðssinni er ég nokkuð upptekinn af því. Ég tel að þetta geti kannski orðið mesta auðlind Íslands eftir 10–15 ár vegna þess að við eigum svo mikið af hreinni orku sem er núna seld á nákvæmlega sama verði og óhrein orka, t.d. í Sádi-Arabíu, Suður-Afríku eða Kína, t.d. til framleiðslu á áli. Ef þetta kerfi yrði notað gæti það gefið íslensku ríkisstjórninni og jafnvel íslensku þjóðinni, þó að við setjum kannski ekki alveg samasemmerki þar á milli, mikla fjármuni og mikla auðlind.

Ég sit ekki í hv. nefnd, get ekki fylgst með því sem gestir segja og spyr því hv. þingmann hvort rætt hafi verið um þennan vinkil, t.d. hvað Landsvirkjun gæti selt raforkuna á miklu hærra verði en aðrir þegar svona kerfi er komið í gang. Það er ljóst að kerfið mun minnka hagnað olíufyrirtækjanna, minnka hagnað olíuframleiðenda og auka kostnað notenda. Á milli kemur eitthvert gjald sem rennur þá væntanlega til íslenska ríkisins. Var það rætt í nefndinni að við hefðum gengið nógu rösklega til verks í því að skapa þennan markað hér á landi og hvort við gætum haft eitthvert frumkvæði umfram aðra í því að undirbúa þetta, skapa góðar forsendur og sérstaklega ræða út í hörgul hvernig við komum arðinum af þessari auðlind til þjóðarinnar í einhverjum skilningi, þá ekki til ríkisins endilega eins og ég geri mikinn mun á þessu tvennu? Er þessi markaður í bígerð?