139. löggjafarþing — 147. fundur,  9. júní 2011.

losun gróðurhúsalofttegunda.

710. mál
[14:48]
Horfa

Frsm. meiri hluta umhvn. (Álfheiður Ingadóttir) (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Ég deili ekki aðdáun hv. þingmanns á markaðskerfinu og hef fullan fyrirvara á þegar menn ræða um óskeikulleika markaðarins og að láta hann ráða för.

Það kom fram í framsögu minni áðan að það er við því að búast að á næsta þingi verði lagt fram frumvarp um þátttöku iðnstarfseminnar í viðskiptakerfinu á grundvelli tilskipunar frá árinu 2009. Í umfjöllun nefndarinnar var ekki sérstaklega rætt um annað, iðnað eða þann þátt sem hv. þingmaður spyr hér um, líklega vegna þess að það er ekki fyrirhugað að annar iðnaður komi inn í þetta kerfi fyrr en eftir 1. janúar á árinu 2013.