139. löggjafarþing — 147. fundur,  9. júní 2011.

losun gróðurhúsalofttegunda.

710. mál
[16:02]
Horfa

Kristján Þór Júlíusson (S) (andsvar):

Forseti. Andsvar hv. þingmanns var í ætt við ágætt nefndarálit hennar; langt og upplýsandi, þannig að það þarf í sjálfu sér ekkert að afsaka það.

Ég tel ekki ýkja mikla hættu á því að við lendum í þeirri stöðu sem hv. þingmaður nefndi áðan varðandi ríkið. Ég skal viðurkenna það að ég hef ekki leitt hugann að því sérstaklega en fljótt á litið mundi ég ætla að við þyrftum ekki að hafa ýkja miklar áhyggjur af því. Ég skal alveg viðurkenna að í þessu máli og í umfjöllun um það hef ég verið mjög hugsi yfir einmitt þeim atriðum sem hv. þingmaður nefndi áðan, þ.e. hvers vegna losunarheimildum verði úthlutað ókeypis til starfandi fyrirtækja. Ég hef satt að segja ekki fundið á því neina aðra skýringu en þá gríðarlegu elsku sem þessi vinstri stjórn hefur og ber til stóriðjufyrirtækjanna í landinu og er mjög annt um starfsemi þeirra og framtíð hér í landi. Það sjá það allir sem vilja sjá það að framlag þessarar atvinnustarfsemi til þjóðarbúsins á þeim þrengingartímum sem við göngum nú í gegnum er gríðarlega mikið. Gildi þess að hafa atvinnugreinar á þessum sviðum er eins og raun ber vitni ákaflega mikið fyrir íslenska þjóð þegar við verðum fyrir þeim áföllum eins og dunið hafa yfir okkur á síðustu missirum.

Það er niðurstaða mín í hnotskurn varðandi afstöðu hluta þess meiri hluta sem skapaðist innar nefndar hv. umhverfisnefndar að þeir nefndarmenn hafi einfaldlega séð ljósið. Ég fagna því að sjálfsögðu gríðarlega.