139. löggjafarþing — 147. fundur,  9. júní 2011.

losun gróðurhúsalofttegunda.

710. mál
[16:37]
Horfa

Frsm. minni hluta umhvn. (Vigdís Hauksdóttir) (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka svarið. Mig langar að vísa í bls. 6, 7 og 8 í frumvarpinu en þar er nefndur allur sá rekstur sem fellur undir þetta ákvæði, rekstur sem losar gróðurhúsalofttegundir. Það vill svolítið brenna við að fólk festist í ríkjandi ástandi og stóriðja er þá bara álframleiðsla og pínulítill annar rekstur en hér á þremur blaðsíðum eru því gerð skil hvaða atvinnuvegir þetta eru. Það er framleiðsla á kalki, framleiðsla á leirvörum með brennslu o.s.frv., þannig að þetta er svo langtum meira en það. Við erum alltaf að leita að nýjum tækifærum og lausnum fyrir þetta ástkæra land okkar til að koma atvinnulífinu af stað þannig að ég vildi það sagt hafa.

Ég er sammála því að þetta færir iðnaðinum sem þarf á losunarheimildum að halda mikil tækifæri, sérstaklega í ljósi þess að þetta er hvatning til að losa minna og hvatning til fyrirtækja að koma sér upp öflugri hreinsibúnaði. En þá komum við að því sem er nú allra best í þessu, það er ekkert ákvæði í frumvarpinu um að mismuninum frá úthlutun og þeim sparnaði sem fyrirtækin ná eigi að skila til ríkisins.

Ef við setjum þetta upp eins og Samfylkingin og Vinstri grænir tala um varðandi kvótakerfið væri það fullkomin fyrningarleið í loftslagsheimildum að fyrirtæki sem mundu sýna árangur í því að draga úr losun mundu skila kvótanum sem þar er á milli til ríkisins. En það var líka fyrst og fremst af pólitískum toga, held ég, sem þessir flokkar réðust á kvótakerfið í sjávarútvegi og við sjáum það birtast í þinginu í dag. Það er alveg einstakt að ósamkomulag skuli vera um þinglok og verið að semja um þau vegna sjávarútvegsstefnu ríkisstjórnarinnar og annars kvótakerfi sem hefur langtum víðtækari áhrif.