139. löggjafarþing — 147. fundur,  9. júní 2011.

losun gróðurhúsalofttegunda.

710. mál
[17:13]
Horfa

Guðlaugur Þór Þórðarson (S) (um fundarstjórn):

Virðulegi forseti. Ég tek undir athugasemdir hv. þingmanna. Ég veit ekki til þess að neitt mál sem við höfum rætt núna sé stærra þegar kemur að fjármunum, þetta eru milljarðar eða milljarðatugir, og í alþjóðlegu samhengi er þetta gríðarlega stórt mál. Það kemur mjög á óvart að hæstv. ráðherra hafi ekki orðið við beiðni um að vera viðstödd þessa umræðu. Er til eitthvert stærra mál en það sem við ræðum núna í fjárhagslegu tilliti? Það er í raun framtíðarskipulag atvinnumála á Íslandi. Mér finnst það alveg furðulegt að stjórnarliðar skuli ekki taka þátt í umræðunni en það er mjög ámælisvert að hæstv. ráðherra og formaður hv. umhverfisnefndar séu ekki hér.