139. löggjafarþing — 148. fundur,  10. júní 2011.

áætlun um alþjóðlega þróunarsamvinnu Íslands 2011--2014.

486. mál
[11:31]
Horfa

Árni Þór Sigurðsson (Vg) (um atkvæðagreiðslu):

Frú forseti. Hér kemur til afgreiðslu fyrsta þingsályktunin um þróunarsamvinnu sem hefur verið unnin á grundvelli laga nr. 121/2008, um alþjóðlega þróunarsamvinnu Íslands.

Í utanríkismálanefnd hafa verið gerðar nokkrar breytingartillögur við þingsályktunartillöguna og einkum er reynt að varða leiðina að markinu um 0,7% framlag til þróunarsamvinnu af vergum þjóðartekjum á næstu árum. Það er ljóst að á tímum mikils niðurskurðar í ríkisfjármálum hafa þjóðirnar sem Ísland ber sig saman við ekki skorið niður til þróunaraðstoðar. Þau grundvallarsjónarmið liggja þar að baki að það séu ríkir hagsmunir þróaðra ríkja að draga úr fátækt og misskiptingu auðs í heiminum, berjast gegn sjúkdómum og faröldrum sem víða eru landlægir í þróunarríkjum og auka menntunarstig með sérstakri áherslu á konur og börn. Framlög til þróunaraðstoðar og samvinnu er því um leið framlag til friðar og jöfnuðar um allan heim. Þessi viðhorf eigum við Íslendingar hiklaust að styðja í verki og það gerum við með fyrstu heildstæðu þróunarsamvinnuáætlun Íslands sem hér liggur fyrir.