139. löggjafarþing — 149. fundur,  10. júní 2011.

rannsókn á aðdraganda og orsökum erfiðleika og falls sparisjóðanna.

866. mál
[20:40]
Horfa

Eygló Harðardóttir (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég get svo sannarlega tekið undir að mjög margt í starfsemi sparisjóðanna og þessum eignatengslum sem hv. þingmaður fór í gegnum vekur upp miklar og alvarlegar spurningar. Ég man eftir sérstaklega einni sögu sem ég fékk að heyra frá stofnfjáreiganda sem mætti á stofnfjáreigendafund í sínum sparisjóði og benti einmitt á að ef maður skoðaði rekstrartölurnar í reikningum viðkomandi sparisjóðs sæi maður að það væru engar rekstrarforsendur og menn lifðu langt um efni fram á grundvelli hagnaðar sem þeir töldu sig vera að fá af þessum bréfum. Hún stóð upp og spurði spurningarinnar: Hvað ætlum við að gera ef við hættum að fá arðgreiðslur af þessum bréfum? Þurfum við ekki að tryggja að þessi grunnstarfsemi okkar standi undir sér óháð hlutabréfaeign okkar í þessum einstöku félögum?

Hún sagði að hún hefði nánast verið gerð brottræk af þessum fundi því að öðrum sem voru á honum fannst fáránlegt að menn væru almennt að velta þessu fyrir sér. Þetta var síðan það sem menn stóðu frammi fyrir þegar spilaborgin hrundi.

Þetta er það sem við vonumst náttúrlega til með samþykkt þessarar rannsóknar, að við fáum svör og getum þá horft til framtíðar. Ég tel mjög brýnt að við tryggjum að við verðum áfram með sparisjóði á Íslandi, öfluga sparisjóði, sparisjóði sem verða það sem höfðum trú á að þeir væru. Ég held að niðurstaða þessarar rannsóknar eigi einmitt að gefa okkur leiðbeiningar um það til framtíðar.