139. löggjafarþing — 149. fundur,  10. júní 2011.

farþegagjald og gistináttagjald.

359. mál
[20:59]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S):

Frú forseti. Ekki er ég vinur nýrra skatta eða skattahækkana og ekki er ég vinur flókinna skattareglna. Segja má að þegar þetta frumvarp kom inn í nefndina hafi það haft einkenni hvors tveggja. Þetta var nýr skattur og eins flókinn og hægt var að hugsa sér. Ég ætla nú ekki að fara að í gegnum allt flækjustigið, frú forseti, en það var með ólíkindum.

Hins vegar vann ég að því innan nefndarinnar að reyna að fá þetta einfaldað og menn voru sammála því að ágætt væri að einfalda kerfið. Það endaði með því að verða eiginlega nánast eins einfalt og ég get hugsað mér, frú forseti, ég sé alla vega ekki einfaldari lausn. Menn borga bara hundraðkall fyrir nóttina burt séð frá því í hvernig gistingin er, tjald eða skáli ferðafélags eða herbergi á hóteli o.s.frv. Það sem tókst ekki að ná inn í þetta eru farþegaskip en ég hugsa að það sé ekkert voðalega mikið mál að bæta því inn seinna.

Þetta er hundraðkall og er í raun þjónustugjald því að ferðamannastaðirnir okkar eru farnir að láta illilega á sjá og eitthvað verður að gera fyrir þá og búa til aðstöðu fyrir ferðamenn sem koma þangað í miklum mæli.

Ég er því með á þessu frumvarpi án fyrirvara, líka vegna þess að ferðaþjónustan sjálf kallaði eftir því eitthvað yrði gert á ferðamannastöðunum. Þetta er svar við því ákalli. Þetta er eins konar þjónustugjald, má segja, þ.e. þetta er ekki skattur, og á að renna til uppbyggingar á þjónustu á fjölsóttustu ferðasvæðum okkar og í raun alla staði þar sem ferðamenn koma. Þetta er líka réttlátara að því leyti að Íslendingar sem ferðast til útlanda borga ekki þetta gjald en ef þeir fara t.d. í tjaldferðalag eða eitthvað slíkt til að skoða landið borga þeir eins og útlendingar fyrir hverja nótt. Mér finnst þetta vera eiginlega eins einfalt og ódýrt kerfi og hægt er og þó að ég sé ekki ánægður með nýja skatta fellst ég á þetta.