139. löggjafarþing — 150. fundur,  11. júní 2011.

ráðstafanir í ríkisfjármálum.

824. mál
[00:46]
Horfa

Tryggvi Þór Herbertsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vil byrja á að þakka hv. þm. Helga Hjörvar fyrir framsöguna og ágætissamstarf í þessu máli. Eins og hv. þingmaður lýsti hafa verið mjög skiptar skoðanir um þetta ákvæði, bæði úti í þjóðfélaginu og í þinginu. Það gengur þvert á bæði stjórnarflokkana og stjórnarandstöðuna.

Nú liggur fyrir að það þarf að fjármagna þær ótekjutengdu vaxtabætur sem hefur verið ákveðið að dreifa til skuldara þessa lands. Það virðist ekki vera vilji fyrir því að fara skattlagningarleið á lífeyrissjóðina sem ég er mjög ánægður með. Gæti hv. þingmaður lýst fyrir mér hvernig hann sæi að þetta mál yrði leyst: Er hann með einhverjar hugmyndir eða eigum við bara að henda þessu frá þinginu og láta framkvæmdarvaldið og hagsmunaaðilana finna þessar leiðir sjálfir? Býr þingmaðurinn yfir einhverjum hugmyndum?