139. löggjafarþing — 156. fundur,  2. sept. 2011.

staðan í efnahags- og atvinnumálum, munnleg skýrsla forsætisráðherra.

[11:57]
Horfa

iðnaðarráðherra (Katrín Júlíusdóttir) (Sf):

Virðulegi forseti. Þessi umræða hefur verið um margt ágæt en eitt fór þó fyrir brjóstið á mér áðan, það er þegar menn í alvöru standa í þessum þingsal og bera Ísland saman við Norður-Kóreu og önnur ríki sem búa við svipaðar aðstæður og þar eru. Það þykir mér grátlegt og ömurlegur málflutningur og ekki forustumanni Framsóknarflokksins samboðinn. (Gripið fram í.)

Virðulegi forseti. Það er svo að í kjölfar hrunsins hurfu nánast í einu vetfangi 12–13 þús. störf í landinu. Það var gríðarlega mikið áfall og verkefnið síðan þá hefur verið að fjölga þeim störfum aftur þannig að allir geti komist til vinnu á ný sem hana misstu. Árangurinn sem náðst hefur er sá að samkvæmt tölum Hagstofunnar fjölgaði störfum um 3.624 frá öðrum ársfjórðungi 2009 til sama tíma árið 2011. Þetta er árangur, ekki nægjanlegur, en þetta er árangur, virðulegi forseti. Við erum á réttri leið og við siglum í rétta átt. Í júlí var atvinnuleysið hér 6,6% og hefur ekki verið lægra frá hruni. Á sama tíma í fyrra eða í júlí í fyrra var atvinnuleysið 7,5%. Það hefur því náðst árangur á þessu ári.

Til að fjölga störfum þýðir ekki að horfa til patentlausna í formi einnar verksmiðju eða tveggja. Það þarf að horfa á atvinnulífið á breiðum grunni, byggja verkfæri, skapa hér umgjörð þannig að atvinnulífið geti vaxið á öllum sviðum, ekki bara einu eða tveimur heldur öllum sviðum. Að því hefur núverandi ríkisstjórn unnið statt og stöðugt síðustu ár.

Virðulegi forseti. Sem dæmi um atvinnugrein þar sem vel gengur hefur hér verið talað um ferðaþjónustuna. Staðan er þannig hjá ferðaþjónustunni að það sem af er þessu ári eða fram í lok ágúst samkvæmt nýjustu tölum fjölgaði farþegum sem fóru frá Keflavíkurflugvelli um 18,1% og þá erum við ekki komin með inn í þá tölu fjölgunina sem varð í gegnum Seyðisfjörð og Reykjavíkurflugvöll eða aðra flugvelli á landinu. Hér er því um gríðarlega fjölgun að ræða. Bókunarstaðan hjá flugfélögunum er þannig að hjá Iceland Express er 30% aukning í bókunum í september og október og 30% hjá Icelandair í september, október og nóvember. Þetta eru gríðarlega góðar fréttir fyrir okkur, virðulegi forseti.

Við ætlum okkur að ráðast í markaðsátak sem verður kynnt á næstu vikum, sem ber vinnuheitið Ísland allt árið, þar sem við ætlum að efla enn frekar vetrarferðaþjónustu. Það þýðir að menn geta óhræddir farið í enn frekari fjárfestingar á sviði ferðaþjónustu vegna þess að þeir vita að nú geta þeir nýtt sínar fjárfestingar allt árið og við erum með þriggja ára skuldbindingu í þá veru.

Skapandi greinum má heldur ekki gleyma. Þær voru kortlagðar hér á síðasta ári þar sem í ljós kom að þær velta a.m.k. 189 milljörðum árlega og skapa um 10 þús. störf. Þetta er, virðulegi forseti, sá angi atvinnulífsins sem við ætlum okkur að sinna enn betur og við erum núna að kortleggja með hvaða hætti við getum stutt við vöxt á þessu sviði.

Sem dæmi má nefna að árið 1999 var umfang fatahönnunar upp á um 300 millj. kr. Á síðasta ári var þetta komið upp í 3 milljarða. Fatahönnun er fjórði stærsti liðurinn í útflutningi Dana og ef við værum með sambærilega stærð og þeir eru með í dag væri veltan í fatahönnun á Íslandi 30 milljarðar. Ef okkur tekst að tífalda aftur þessa veltu verður hún orðin jöfn og hjá Dönum þegar kemur að þessum atvinnuvegi. Þetta skiptir mál, þarna eru sóknarfæri, virðulegi forseti. Þessu ætlum við að sinna og erum að sinna og við vinnum að því núna ásamt hundruðum aðila úr hönnunargeiranum á breiðum grunni að marka hér hönnunarstefnu til að styðja við þessa þróun.

Virðulegi forseti. Í nýsköpunar- og hugverkaiðnaðinum höfum við svo sannarlega verið að skapa verkfæri með endurgreiðslum á rannsóknar- og þróunarkostnaði. Við erum að nýta stoðkerfið vel enda sjáum við þá grein blómstra og hér hefur fjöldinn allur af nýjum fyrirtækjum á þessu sviði orðið til. Þarna má þó gera betur. Við megum auka fjármagn til Tækniþróunarsjóðs. Það mundi auka stuðning við þennan geira enn frekar. Við þurfum líka að skoða samspil menntakerfisins og nýsköpunargeirans og hugverkaiðnaðarins því að það er svo að flest fyrirtæki geta lent á vegg af því að okkur vantar sérhæft fólk. Þetta eru verkefnin fram undan, virðulegi forseti, og við þurfum að einhenda okkur í þetta, ekki bölsýnina sem hér ríkir.

Virðulegi forseti. Það er líka svo að heilmikið er að gerast þegar kemur að orkuframkvæmdum. Búðarháls er á fullri ferð í byggingu og framkvæmdir þar standa yfir þó að margir hér inni hafi helst viljað afneita því.

Það er líka staðreynd að það er á áætlun Landsvirkjunar að fara af stað á næsta ári á Norðausturlandi með framkvæmdir í Bjarnarflagi og á Þeistareykjum. Til marks um það hefur nú þegar verið boðin út hönnun á öllum þessum mannvirkjum þannig að sú framkvæmd er á áætlun og síðast á þriðjudaginn var það haft eftir forstjóra Landsvirkjunar í tengslum við samning um sölu á skuldabréfum fyrirtækisins, þá sagði hann beinlínis að þetta fjármagn yrði m.a. nýtt við fjármögnun framkvæmda á Norðausturlandi sem stefnt sé að að ráðast í á næsta ári. Virðulegi forseti. Hér er ekki ládeyða í þessum efnum.

Við höfum líka sett ívilnanalöggjöf, sem Alþingi samþykkti einróma og var vel gert, og á grundvelli hennar höfum við þegar gert þrjá fjárfestingarsamninga og núna eru fjórir nýir í bígerð. Þegar menn gera fjárfestingarsamninga má ætla að þeir ætli sér hluti hér á landi.

Virðulegi forseti. Varðandi Helguvíkurframkvæmdir og Suðurnesin er það svo að því miður er þar allt stopp vegna ágreinings samningsaðila um gildi orkusamninga en það er von okkar að í lok þessa mánaðar þegar sá ágreiningur hefur verið leystur eða hvernig sem hann fer þá getum við farið að sjá línur skýrast í því verkefni.

Kísilverið í Helguvík er að fara af stað samkvæmt nýjustu fregnum. Því hefur seinkað örlítið en það hefur þó ekki áhrif á það að menn muni klára framkvæmdirnar og áætla það á réttum tíma. Fleiri verkefni get ég nefnt, virðulegi forseti, en gefst ekki tími til.

Það skiptir máli, virðulegi forseti, að við vinnum öll að þessum málum af heilum hug og höldum ekki með einu verkefni umfram önnur heldur horfum á málin á breiðum grunni. Það er það sem þjóðin þarf og ríkisstjórnin vinnur af heilum hug (Forseti hringir.) að því að búa til verkfæri sem geta skapað góð skilyrði fyrir uppbyggingu fyrirtækja á öllum sviðum íslensks atvinnulífs. (Forseti hringir.)