139. löggjafarþing — 156. fundur,  2. sept. 2011.

atvinnuleysistryggingar og réttarstaða starfsmanna við aðilaskipti að fyrirtækjum.

830. mál
[14:07]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Frú forseti. Við megum ekki gleyma því að við erum löggjafinn. Við erum til þess kosin og við erum löggjafinn á grundvelli stjórnarskrár sem við höfum svarið eið að. Við eigum að setja lög, og ekki bara setja þau heldur helst semja þau. Ég legg til að ný nefnd, velferðarnefnd, fari í gegnum lagasafnið og gái að því hvað þurfi að laga. Þetta er eitt af því sem þarf að laga eða taka ákvörðun um. Ég er hlynntur hlutaatvinnuleysisbótum. Mér finnst þær mjög snjallt tæki til að viðhalda þekkingu í fyrirtækinu, til að viðhalda tengslum þeirra sem eru atvinnulausir við atvinnulífið og til að hjálpa mönnum yfir ákveðna skammtímaerfiðleika sem koma ekki bara í hruni, þau koma reglulega í atvinnurekstri. Þess vegna er atvinnurekstur áhættusamur. Til þess að hjálpa fyrirtækjunum, starfsmönnum og öllum rekstrinum yfir ákveðin högg getur verið mjög snjallt að geta sagt starfsmönnum upp að hluta til án þess að missa þá alla út um hvippinn og hvappinn. Atvinnuleysisbæturnar hjálpa þá til við þá aðlögun sem felst í því að ráða við ákveðið högg.

Ég er hlynntur atvinnuleysisbótum en að sjálfsögðu þurfum við að ræða þær. Það gafst ekki nægur tími þegar þetta var tekið upp á sínum tíma og virðist enn þá ekki gefast nægur tími til að ræða svona mál hugmyndafræðilega.