139. löggjafarþing — 156. fundur,  2. sept. 2011.

almannatryggingar o.fl.

763. mál
[17:06]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S) (um atkvæðagreiðslu):

Frú forseti. Ég vona að ég hafi verið nógu snöggur núna — og ég var það — til að fá að gera grein fyrir atkvæðagreiðslunni.

Hér er um að ræða frumvarp sem frestar vandanum sem Alþingi hefur ekki tekið á síðan 1974 þegar það samþykkti skylduaðild að lífeyrissjóðum og það hefur ekki tekið á því hvernig lífeyrissjóðirnir rekast á almannatryggingar. Ég er ekki hlynntur því að fresta þessu vandamáli en hins vegar mun ég greiða atkvæði með frumvarpinu vegna þess að menn sjá enga aðra lausn eins og stendur.

Þetta frumvarp er samið úti í bæ af aðilum vinnumarkaðarins. Ég gerði athugasemd við það og vil helst ekki að framkvæmdin sé þannig að menn úti í bæ semji frumvörp sem verða að lögum á Alþingi, ella séu kjarasamningar ekki uppfylltir. Þetta gleymdist í vor eins og fleira og vil ég skora á hæstv. forseta að skipuleggja störf þingsins betur og fá til þess verkfræðinga.

Ég legg til að (Forseti hringir.) hv. þingmenn greiði atkvæði með frumvarpinu.