139. löggjafarþing — 156. fundur,  2. sept. 2011.

úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála.

709. mál
[19:01]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir ræðu hans. Þegar maður kafar ofan í þau lög sem hér er vísað í, eins og í b-lið 4. gr. þar sem er vísað í III. kafla laga um mat á umhverfisáhrifum, þ.e. um hvaða framkvæmdir eða hluti er hægt að kæra, þá kemur ýmislegt í ljós, að þetta er býsna langur listi þar sem hægt er að hafa áhrif með þessum hætti og mjög gott eflaust að hægt sé að hafa áhrif á margt af því sem þarna er talið upp.

Mér dettur nú í hug að minnast á t.d. flugvelli, að ef farið væri í að færa Reykjavíkurflugvöll eins og rætt hefur verið um á Hólmsheiði eða eitthvert þá sé ég fyrir mér að við landsbyggðartútturnar, sem margir segja að eigi ekkert að hafa um það að segja hvar sá flugvöllur er, mundum taka okkur saman og gera athugasemdir við þetta. Þetta er svona dæmi um hvernig hlutir geta lent í að verða settir í bið eða strand. Stofnbrautir í þéttbýli, mér verður hugsað til borgarinnar þegar leggja þarf hér nýjar stofnbrautir. Nýir vegir utan þéttbýlis sem eru 10 kílómetrar eða lengri, Vesturlandsvegurinn, ég veit ekki hvort það er búið, hvort allar heimildir eru til fyrir — eru þetta nýir vegir? Já, nýir vegir sleppa líklega þarna.

Síðan komum við að máli sem við höfum rætt hér í dag sem er vinnsla á jarðolíu. Það læðist að manni sá grunur eða ég spyr hvort það hafi verið hugsað alveg til enda að allir geti kært allt, þar á meðal þetta. Er það virkilega hugsunin?