139. löggjafarþing — 157. fundur,  5. sept. 2011.

virðisaukaskattur o.fl.

898. mál
[12:27]
Horfa

Lilja Mósesdóttir (U) (andsvar):

Frú forseti. Ástæða þess að ég tel að hægt sé að lækka skatta á millitekjuhópana núna er m.a. sá hagvöxtur sem hefur verið í landinu sem þýðir að skatttekjur ríkissjóðs eru að hækka. Við neyddumst til þess að hækka skatta á árunum 2009 og 2010 vegna þess að hér varð það mikill samdráttur í samfélaginu að valið stóð milli þess að skera niður grunnþjónustu velferðarkerfisins eða hækka skatta.

Rannsóknir sýna líka að það má ekki ganga of langt í niðurskurði á krepputímum vegna þess að þá kemur ríkið bara kostnaði samfélagsins yfir á einstaklingana. Eftir niðurskurð þurfa einstaklingarnir að keyra marga kílómetra, sem ég geri ráð fyrir að hv. þm. Unnur Brá Konráðsdóttir þekki, til þess að fá t.d. læknisþjónustu sem það hafði áður í heimabyggð. Þá er ríkið í raun og veru búið að koma kostnaðinum við að veita þessa þjónustu yfir á einstaklingana sem þurfa virkilega á henni að halda. Það er því mjög mikilvægt að fara varlega í niðurskurðinn og halda jafnframt á einhvern hátt aftur af hallarekstri ríkissjóðs vegna þess að skattstofnarnir hafa dregist saman. Þess vegna var farið í skattahækkanirnar þegar samdrátturinn varð sem mestur. Nú sjáum við fram á aðeins bjartari tíma þó að ég hefði viljað sjá meiri hagvöxt.

Hvað varðar svarta atvinnustarfsemi hefur hún vissulega alltaf verið vandamál hér á landi. Svört atvinnustarfsemi er ekki vandamál í dag vegna þess að skattar séu svo háir heldur vegna þess að launin eru svo lág.