139. löggjafarþing — 158. fundur,  6. sept. 2011.

störf þingsins.

[10:46]
Horfa

Lilja Mósesdóttir (U):

Virðulegi forseti. Áhrifa AGS gætir enn á þinginu þrátt fyrir útskrift ríkisstjórnarinnar frá sjóðnum. Í hv. samgöngunefnd er frumvarp til sveitarstjórnarlaga þar sem er að finna ákvæði sem AGS leggur mikla áherslu á að verði samþykkt. Samkvæmt þessu ákvæði mega heildarskuldir og skuldbindingar A- og B-hluta í reikningum sveitarfélaga ekki vera hærra hlutfall en 150% af reglulegum tekjum yfir þriggja ára tímabil. Hægt er að sækja um undanþágu fyrir mikilvæga atvinnuuppbyggingu.

Frú forseti. Ég vara við innleiðingu þessa ákvæðis. Á Spáni hefur slíkt ákvæði verið við lýði og endurskoða hefur þurft bæði skilgreiningar og undanþágur á hverju ári þrátt fyrir að spænska hagkerfið sé tiltölulega stöðugt miðað við það íslenska. Mikil óvissa hefur því skapast hjá sveitarfélögunum á Spáni um það hvort þau séu yfir eða undir skuldaþakinu.

Ég óttast að skuldaþakið muni neyða mörg sveitarfélag á Íslandi til að selja eignarhaldsfélögum fasteignir sínar. Slík eignasala minnkar skuldsetningu en eykur kostnað sveitarfélaganna. Alvarlegast er þó að skuldaþakið mun gera sveitarfélögum afar erfitt að fjármagna B-hluta fyrirtæki eins og Orkuveituna.

Frú forseti. Ég spyr því: Er ástæða þess að AGS vill innleiða skuldaþakið sú að nota eigi það til að þrýsta á einkavæðingu? Ég óska eftir skoðun hv. varaformanns samgöngunefndar á skuldaþakinu.