139. löggjafarþing — 158. fundur,  6. sept. 2011.

skattlagning á kolvetnisvinnslu.

702. mál
[11:54]
Horfa

Birkir Jón Jónsson (F):

Frú forseti. Við ræðum frumvarp um breytingu á ýmsum lögum er varðar olíuleit norðaustur af landinu, kennda við Drekasvæðið. Það er ekki að ástæðulausu sem efnahags- og skattanefnd flytur frumvarpið vegna þess að verði það að lögum mun það leysa af hólmi arfavitlausa og gallaða löggjöf sem var unnin í iðnaðarráðuneytinu á sínum tíma. Það leiddi það af sér að ekki nokkur einasti maður hafði áhuga á að ráðast í olíuleitina. Umhverfi skattamála og þeirra aðila sem vilja stunda olíuleit var einfaldlega mjög óhagkvæmt. Við getum kannski yfirfært þá löggjöf yfir á svo margt annað sem er að gerast í íslensku atvinnulífi í dag og vil ég minna á að við höfum talað fyrir því að við eigum að setja löggjöf sem hvetur til fjárfestinga en letur ekki og þess vegna er ég mjög ánægður með að við skulum hafa náð að afgreiða úr efnahags- og skattanefnd það frumvarp sem við ræðum hér.

Eins og ég segi er þetta frumvarp um olíuvinnslu. Eitt sérstakt við þetta mál er að það gleymdist í vor. Þetta er ekkert smámál, við erum að ræða um stórmál sem gæti skapað íslensku þjóðarbúi mörg hundruð milljarða króna (Gripið fram í: Í gengis…) en í öllum asanum í vor gleymdist frumvarpið einfaldlega. Það var ekki á forgangslista ríkisstjórnarinnar að klára þetta stóra mál. Það er mér mikil ánægja að við í stjórnarandstöðunni skulum geta stuðlað að því að klára málið. Við erum að ræða um gríðarlega mikla hagsmuni ef við náum árangri í því að finna olíu norðaustur af landinu. Við þurfum bara að horfa til frænda okkar í Noregi til að sjá hvers lags auð olíuauðlindin hefur skapað þar þannig að það er mikið undir í þessum efnum.

Eins og formaður nefndarinnar fór yfir áðan fela þær breytingar sem verið er að gera hér og endurspeglast í þessari sérstöku skattlagningu gagnvart þessari atvinnugrein í sér að hreinn hagnaður vex af vinnslunni á olíunni, þ.e. ef hún finnst, og þeim mun meiri renta mun renna til þjóðarinnar, sérstaks sjóðs ef við mundum stofna hann eða ríkissjóðs eftir því hvernig við mundum líta á það. Það veitir svo sannarlega ekki af því á þessum síðustu og verstu tímum að skapa meiri tekjur fyrir stórskuldugan ríkissjóð sem í dag borgar 1 kr. af hverjum 5 í vaxtakostnað vegna skulda. Þess vegna er gríðarlega mikilvægt að við förum að finna nýja tekjustofna til að skjóta styrkari stoðum undir rekstur ríkissjóðs.

Eins og fram hefur komið í þessari umræðu erum við að ræða um grundvallarmál, það hvernig við viljum verja og nýta sameiginlegar auðlindir þjóðarinnar. Ég hef trú á því að nái þetta mál fram að ganga skjótum við enn styrkari stoðum undir svokallaða auðlindarentu sem auðlindir í sameiginlegri eigu þjóðarinnar munu skila Íslendingum öllum í framtíðinni. Þar erum við að tala um orkuauðlindir, við erum að tala um vatnið, fiskinn og jafnvel þessa olíuauðlind. Allt mun þetta hjálpa okkur í framtíðinni til að byggja upp öflugt velferðarsamfélag sem því miður hefur farið mjög hnignandi á undangengnum tæpum þremur árum.

Ég lýsi yfir mikilli ánægju með að við skulum vilja leita að olíu og nýta þessa auðlind okkar og það geri ég sem nýtingarsinni með almannahagsmuni að leiðarljósi. Ég hef talað fyrir því að við umgöngumst íslenska náttúru af virðingu en ég hef líka lagst alfarið gegn því að setja á eitthvert allsherjarstopp þegar kemur að nýtingu á náttúruauðlindum þjóðarinnar. Við þurfum að lifa af landinu og við þurfum að nýta þær auðlindir sem okkur bjóðast hér í skynsamlegum mæli og ég minni á að á undangengnum árum hefur einn flokkur staðið sérstaklega í stafni og reynt að takmarka það að við bindum vatnsföllin og virkjuðum auðlindir okkar. Þá er ég að tala jafnt um jarðhita og vatnsföll.

Þessar auðlindir þjóðarinnar, jarðvarminn og vatnsföllin sem mörg hver falla óvirkjuð til sjávar, eru þau umhverfisvænstu í veröldinni. Ef við hugsum um umhverfisvernd, ekki bara út frá þröngum íslenskum hagsmunum heldur á alþjóðlega vísu, hlýtur það að koma til góða fyrir umhverfismál heilt yfir að við skulum nota endurnýjanlega orkugjafa sem menga lítið.

En nú erum við að ræða mál sem ég styð, mál sem snýr að olíuleit og vinnslu olíu. Það kemur mér afskaplega mikið á óvart að Vinstri hreyfingin – grænt framboð skuli vera aðili að þessu máli og vilja samþykkja að við förum að nýta og brenna olíu norðaustur af landinu. Þetta er ekki alveg í takt við þá hugmyndafræði sem Vinstri hreyfingin – grænt framboð hefur talað fyrir á undangengnum árum, en gott og vel, ég fagna þeirri stefnubreytingu hjá þessum stjórnmálaflokki að nú skuli hann styðja þessa viðleitni. Það eru miklir hagsmunir undir eins og ég hef áður sagt en við verðum líka að hugsa um umhverfismálin. Öll erum við umhverfisverndarsinnar í hjarta okkar, ekki bara út frá íslenskum hagsmunum, við þurfum að hugsa málin heildrænt og eins og við vitum er brennsla á olíu og kolum margfalt verri fyrir umhverfið en nýting á þessum tæru orkugjöfum sem við Íslendingar eigum í formi þess að beisla ár og jarðvarma. Það verður fróðlegt að sjá á næstu vikum og mánuðum hvernig við munum þá haga okkar málum til framtíðar litið þegar kemur að rammaáætlun og því hvernig við ætlum að standa að því að umgangast mikilvægar orkuauðlindir og hvort við ætlum að nýta þær í þágu umhverfisvænnar orkuframleiðslu. Það verður mjög fróðlegt að bera saman stuðning einstakra stjórnmálaflokka og stjórnmálamanna við þetta mál sem við ræðum hér og það að nýta margar orkuauðlindir á til að mynda norðausturhorni landsins og á Suðurlandi. Þær orkuauðlindir menga margfalt minna en það sem við ræðum um hér.

Eins og ég segi er það mikið ánægjuefni að standa að þessu nefndaráliti. Eins og hv. formaður nefndarinnar Helgi Hjörvar og hv. þm. Pétur H. Blöndal nefndu hefur mikið verið unnið í þessu máli. Sérfræðingar hafa verið kallaðir á fundi efnahags- og skattanefndar og málið hefur verið unnið af yfirvegun. Ég vil minna á það sem ég sagði í upphafi máls míns, verði þetta frumvarp að lögum leysir það af hólmi meingallaða löggjöf sem beinlínis fældi áhugasama aðila frá því að leita að olíu. Það umhverfi sem þau lög bjuggu þeim aðilum sem hafa áhuga á að leita að olíu úti fyrir norðausturhorni landsins var einfaldlega ekki nægilega gott. Vonandi mun þetta frumvarp, verði það að lögum, leiða til þess að nú muni aðilar leita að olíu og vonandi munum við í framhaldinu ná einhverjum arði af þeirri leit í því formi að þeir finni þá eitthvað. Ég minni líka á það sem mér finnst vera mjög gott í öllu þessu máli, það samstarf sem við höfum átt við Norðmenn í þessum málaflokki sem er sú þjóð sem hefur hvað mesta reynslu í veröldinni af olíuleit á sjávarbotni. Finnist núna olía á því svæði sem þeir eru að rannsaka mun ákveðinn prósentuhluti renna til okkar Íslendinga og ef olía finnst í þessari leit á grundvelli þessa frumvarps mun ákveðinn hluti renna til Norðmanna. Ég tel mikilvægt að við reynum að eiga sem best samstarf við Norðmenn þegar kemur að þessum málum. Þeir hafa yfirgripsmikla reynslu og þekkingu á þessu sviði. Við erum að ræða afar mikla hagsmuni fyrir fámenna þjóð. Við erum bara 320 þús. talsins en ef þessi auðlind gefur mikið af sér þýðir það gríðarlega mikil verðmæti sem munu renna þá til þjóðarinnar, annaðhvort í sérstakan olíusjóð ef við færum leið Norðmanna eða í ríkissjóð. Þegar upp er staðið mun það þá vonandi skila sér í því að almenningur mun hafa það betra eftir þann fund en hann hefur í dag. Veitir svo sannarlega ekki af því að snúa úr vörn í sókn.

Ég lýsi yfir stuðningi við þetta frumvarp, og við framsóknarmenn gerum það. Þetta getur líka leitt af sér, og tala ég þá sem þingmaður Norðausturkjördæmis, gríðarleg umsvif, bæði meðan á leit stendur og ekki síður ef þarna finnst olía í vinnanlegu magni. Þá horfum við upp á mikla uppbyggingu þar, byggingu hafnar og mikil umsvif á norðausturhorni landsins sem mundu breyta búsetuskilyrðum í grundvallaratriðum. Við í Framsóknarflokknum höfum talað fyrir því að menn séu einbeittir í þessu verkefni og þess vegna var mjög slæmt þegar það uppgötvaðist í vor að þetta frumvarp hefði dagað uppi. Mér skilst sem betur fer og legg trúnað á það að sú tveggja eða þriggja mánaða töf sem hér um ræðir muni ekki hafa áhrif á framvindu mála. Það er mikilvægt. Þess vegna munum við sýna aðhald í þinginu og spyrja hæstv. iðnaðarráðherra reglulega út í það hvernig þessum málum vegni. Það er mjög mikilvægt að menn gangi fumlaust til verka en vandi sig jafnframt og þar legg ég áherslu á að íslensk stjórnvöld hafi gott samstarf við Norðmenn á þessu sviði eins og mér skilst að hafi átt sér stað á undangengnum mánuðum.

Hér er um gott mál að ræða, mál sem getur fleytt okkur fram veginn, skapað mikla atvinnu í íslensku samfélagi, skapað miklar tekjur fyrir ríki, sveitarfélög og heimilin í landinu. Það er ekki á hverjum degi sem við ræðum þau mál í sölum Alþingis þannig að það er gleðilegt að ræða þetta mál í þinginu, miklu gleðilegra en til að mynda Icesave 1, 2 og 3. Þetta er mál sem horfir í allt aðra átt þannig að ég lýsi því yfir að við framsóknarmenn munum styðja þetta mál af öllum okkar kröftum og munum fylgja því eftir í framhaldinu að áfram verði haldið uppi öflugri vinnu á þessu sviði. Til þess er þingið, það á að veita framkvæmdarvaldinu aðhald og það munum við gera í framhaldinu verði þetta frumvarp samþykkt. Ég hvet allan þingheim til að sameinast um að við klárum þessa löggjöf þannig að markviss olíuleit geti farið að eiga sér stað úti fyrir norðausturhorni landsins sem vonandi mun skila okkur árangri til lengri tíma litið.