139. löggjafarþing — 159. fundur,  7. sept. 2011.

Landhelgisgæslan -- uppbygging á Grímsstöðum á Fjöllum o.fl.

[11:01]
Horfa

Björgvin G. Sigurðsson (Sf):

Frú forseti. Umræðan sem þau áttu áðan, hv. þingmenn Vigdís Hauksdóttir og Róbert Marshall, um framtíðarstöðu Landhelgisgæslunnar var tímabær og þörf.

Fyrir nokkrum mánuðum fluttum við tíu þingmenn Suðurkjördæmis tillögu þar sem við lögðum til að Landhelgisgæslan yrði flutt til Reykjanesbæjar. Þannig mundi ríkisvaldið sýna í verki stuðning við eflingu atvinnulífs þar suður frá þar sem er gríðarleg þörf á hvers konar atvinnuuppbyggingu en um leið, og skiptir ekki minna máli, væri Gæslunni fundinn framtíðarstaður. Um er að ræða mikið, gott og öflugt húsnæði þar sem Landhelgisgæslan getur flutt og sameinað alla starfsemi sína á einum stað.

Þetta eru sem sagt þrenns konar markmið: Í fyrsta lagi að efla atvinnulíf á Suðurnesjum innan þess atvinnusvæðis þannig að sama starfsfólk geti að sjálfsögðu gegnt störfunum áfram. Í öðru lagi að ná fram hagræðingu og sparnaði í rekstri stofnunarinnar með því að sameina allt á einn stað. Í þriðja lagi að efla verulega rekstur og stöðu Landhelgisgæslunnar eins og kom fram í máli hv. fyrirspyrjanda að væri mikil þörf á. Þennan flutning ætti að sjálfsögðu að hefja sem allra fyrst.

Ef tillaga okkar um að flytja Gæsluna suður eftir verður ekki afgreidd núna á septemberþinginu verður hún endurflutt þegar í upphafi októberþingsins. Það var gerð tilraun til að reikna sig frá þessu markmiði með mjög óljósum og þokukenndum leiðum og ótrúverðugum og ég held að við eigum að halda ótrauð áfram að stefna að þessu markmiði til að efla Gæsluna, ná fram hagræðingu og sparnaði og efla um leið atvinnu, mannlíf og félagslíf suður með sjó og nýta það mikla húsnæði sem er að finna á Vallarheiðinni og er tilvalið til að sameina undir einu þaki alla starfsemi Landhelgisgæslunnar.