139. löggjafarþing — 159. fundur,  7. sept. 2011.

gjaldeyrismál og tollalög.

788. mál
[17:09]
Horfa

Björn Valur Gíslason (Vg) (andsvar):

Forseti. Mér þykir það leitt að hv. þingmaður svaraði held ég ekki nema einni af þeim spurningum sem ég beindi til hennar. Ég spurði m.a. að því hvort hv. þingmaður héldi því fram að stjórnvöld í dag væru að verja einhverja aðra hagsmuni en stjórnvöld sem settu lögin á í nóvember 2008 og þá hvaða hagsmuni hv. þingmaður teldi að við værum að verja.

Það er ekki rétt sem kemur fram hjá hv. þingmanni að verið sé að festa í gildi gjaldeyrishöft í landinu um óráðna framtíð heldur fjallar frumvarpið um afnám gjaldeyrishafta. Verið er að byggja á áætlun um afnám gjaldeyrishafta sem gefin var út fyrr á þessu ári. Um það snýst frumvarpið.

Það er vissulega rétt sem kemur fram hjá hv. þingmanni að hér ríkti neyðarástand haustið 2008. Í ræðum þingmanna Sjálfstæðisflokksins í gær kom fram að enginn gerði sér grein fyrir því hvað biði okkar í framtíðinni. Menn gerðu sér ekki grein fyrir því þá. Ég vitna sérstaklega í ræðu hv. þm. Einars Kristins Guðfinnssonar sem orðaði það svo að það hefði ekki nokkur (Forseti hringir.) einasta sála gert sér grein fyrir því ástandi sem þá (Forseti hringir.) herjaði á landið og að við mundum þurfa að búa við (Forseti hringir.) það lengur en nokkrar vikur og jafnvel mánuði.