139. löggjafarþing — 159. fundur,  7. sept. 2011.

fullnusta refsinga.

727. mál
[22:26]
Horfa

Birgir Ármannsson (S):

Hæstv. forseti. Þeir fyrirvarar sem ég gerði við frumvarpið eru í öllum atriðum samhljóða þeim sem síðasti ræðumaður, hv. þm. Sigurður Kári Kristjánsson, gerði grein fyrir og þarf ég ekki að fjalla nánar um þau atriði. Ég vildi þó segja, eins og hv. þingmaður, að ég held að þær breytingar sem eru í frumvarpinu séu til bóta. Ég held að það sé eðlilegt, þegar við veltum fyrir okkur fullnustu refsinga, að við skoðum og reynum nýjar leiðir eins og hið svokallaða rafræna eftirlit um leið og við stígum ákveðið skref í að víkka út skilyrði samfélagsþjónustu, sem ég tel að góð reynsla sé af.

Að sönnu er ekki gengið jafnlangt, miðað við breytingartillögur nefndarinnar, og gert var í upphaflegu frumvarpi hæstv. innanríkisráðherra. Það er með öðrum orðum samhljóða niðurstaða nefndarinnar að stíga varfærnara skref en hæstv. innanríkisráðherra lagði til í upphafi. En þetta úrræði og útfærsla þess hlýtur áfram að vera til skoðunar. Ég styð það skref sem hér er stigið með þeirri breytingu sem hv. allsherjarnefnd hefur komist að en tel að við þurfum jafnframt að huga að fyrirkomulagi þessara mála.

Hv. þm. Sigurður Kári Kristjánsson gerði grein fyrir þeim mismunandi sjónarmiðum sem snúa að ákvörðun um samfélagsþjónustu, hvort hún eigi að liggja hjá stofnun framkvæmdarvaldsins, þ.e. hjá Fangelsismálastofnun, eða hjá dómstólum. Eins og hann rakti má færa rök fyrir hvoru tveggja. Nefndin er á þessu stigi ekki tilbúin að fara í róttæka breytingu á þessu þó að tillögur hafi komið fram um það frá umsagnaraðilum. Hins vegar held ég að mikilvægt sé að sú umræða fari fram áfram. Það eru ákveðin lögfræðileg rök sem hníga að þeirri leið sem Dómarafélagið leggur meðal annars til, þ.e. að ákvörðun um samfélagsþjónustu verði tekin af dómstólum en ekki af stofnun framkvæmdarvaldsins. Á móti koma hagkvæmnisrök og ákveðin reynslurök sem tengjast því að hafa óbreytt fyrirkomulag. Það er því ekki verið að gera róttækar breytingar í þessum efnum en ég tek fram að ég er tilbúinn í áframhaldandi umræður um þetta sem hugsanlega geta leitt til breytinga þegar fram líða stundir.

Fullnusta refsinga er viðkvæmur málaflokkur eins og bæði hv. þm. Sigurður Kári Kristjánsson og formaður hv. allsherjarnefndar, hv. þm. Róbert Marshall, hafa gert grein fyrir. Það er mikilvægt að við höfum fjölbreytt úrræði sem geta nýst einstaklingum sem búa við mjög mismunandi aðstæður. Frumvarpið sem hér liggur fyrir er skref í áttina að því að auka möguleikana í því sambandi og er þar af leiðandi jákvætt.

Þó að það tengist ekki efni þessa frumvarps með beinum hætti vil ég ekki láta hjá líða að nefna að þrátt fyrir að frumvarpið nái fram að ganga, og muni væntanlega nýtast einhverjum hópi sem hlotið hefur, eða á eftir að hljóta, refsingu fyrir dómstólum, þá breytir það ekki því að ástand fangelsismála hér á landi er ekki nægilega gott. Við því þarf að bregðast og ég er þeirrar skoðunar að bregðast þurfi hratt við. Þar er ég að vísa til þess að hvort sem okkur líkar betur eða verr er óhjákvæmilegt að fjölga fangelsisrýmum í landinu. Við þurfum að fjölga bæði gæsluvarðhaldsrýmum og eins vistunarrýmum til lengri tíma. Það er afar mikilvægt að þingmenn séu meðvitaðir um að hjá því verður ekki komist. Þá ætla ég ekki að svo stöddu að blanda mér í deilur um það hvar nýtt fangelsi á að rísa eða hvernig standa eigi að þeirri framkvæmd að öðru leyti. Ég vildi árétta það sjónarmið að því miður er staðan sú að þörf er á fjölgun fangelsisrýma og við því þurfum við að bregðast. Það er staðreynd sem er ekki ánægjuleg á neinn hátt en undan því verður, að mínu mati, ekki vikist.