139. löggjafarþing — 160. fundur,  8. sept. 2011.

viðvera ráðherra í óundirbúnum fyrirspurnum.

[10:38]
Horfa

Einar K. Guðfinnsson (S):

Virðulegi forseti. Ég ætla að róa hv. varaformann þingflokks Samfylkingarinnar, það er ekki fyrsta verk þingmanna að gá hvort hæstv. forsætisráðherra sé mættur hérna. Hins vegar bregður manni yfirleitt frekar við þegar hæstv. forsætisráðherra sést á ráðherrabekknum.

Það þing sem við erum núna stödd á, þessi hluti af þessu þingi, stendur í hálfan mánuð. Það hefur ekki þótt til mikils mælst af hæstv. forsætisráðherra að ráðherrann sæi sér fært að sitja hér og svara fyrir ýmsa hluti sem eðlilegt er að þingmenn stjórnarandstöðunnar og aðrir þingmenn kynnu að vilja beina til hennar.

Það kann að vera og auðvitað er hæstv. forsætisráðherra að sinna embættisskyldum en það er ekki frambærilegt að vísa til þess að um sé að ræða heimsóknir erlendra sendimanna. Það hefði verið auðvelt að hnika til þeirri dagskrá þannig að hæstv. ráðherra hefði getað verið stödd í þingsalnum í svo sem eins og hálftíma. Það er ekki annað sem verið er að fara fram á. Þetta er virðingarleysi (Forseti hringir.) gagnvart þinginu og þeirri þinglegu skyldu sem hæstv. forsætisráðherra hefur.