139. löggjafarþing — 160. fundur,  8. sept. 2011.

viðvera ráðherra í óundirbúnum fyrirspurnum.

[10:46]
Horfa

Einar K. Guðfinnsson (S):

Virðulegi forseti. Á orðum hv. þm. Ólínar Þorvarðardóttur mátti skilja að úr því að hæstv. forsætisráðherra hefði komið og flutt þinginu skýrslu væri hún búin að búa sér til eins konar fjarvistarleyfi frá því að sitja fyrir svörum gagnvart þingmönnum í þessari viku. Þetta er mjög athyglisverð nálgun á málið en það er einfaldlega ekki svona. Þessi septemberstubbur stendur í tvær vikur. Nú er fyrri vikunni að ljúka. Hæstv. forsætisráðherra hefur ekki gefið færi á því að sitja fyrir svörum eins og við höfðum gert ráð fyrir. Það var nánast orðin regla að hæstv. forsætisráðherra væri hér að minnsta kosti í öðrum hvorum tíma, þó að hún hafi að vísu ekki alveg virt það.

Hæstv. velferðarráðherra sagði síðan að hægt væri að nota alls konar önnur samskiptaform nútímafjarskiptatækni. Á hæstv. velferðarráðherra þá við að við ættum að fara að senda hæstv. forsætisráðherra SMS? Ég vil þá beina orðum mínum til hæstv. forseta og biðja um að farsímanúmeri hæstv. forsætisráðherra verði dreift til þingmanna þannig að við getum að minnsta kosti sent SMS-spurningar til hæstv. ráðherra.