139. löggjafarþing — 160. fundur,  8. sept. 2011.

vatnalög.

561. mál
[14:03]
Horfa

Frsm. iðnn. (Kristján L. Möller) (Sf) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir innlegg hans í þessa umræðu. Það er ánægjulegt að við skulum vera að tala um breytingu á vatnalögum og ræða þau. Ég vitna þar í upphafsorð hv. þingmanns „víðtæk samstaða um“ og „góð samvinna í hv. iðnaðarnefnd“. Ég vil nota tækifærið, af því að ég gat ekki komið því að áðan, og þakka iðnaðarnefndarmönnum fyrir vel unnin störf og mikla samstöðu. Ég læt það að baki sem við áttum umræður um liðin ár, ég ætla ekkert að vera að vitna í það. Aðalatriðið er að tekin var ákvörðun um að færa hin góðu vatnalög frá 1923, sem tók langan tíma að búa til, til nútímans, og hafa þau þá í einhver ár eða um árabil meðan unnið er að öðrum þáttum sem snerta nútímarekstur samfélags, þ.e. auðlindum, hver eigi þær o.s.frv. Við tökum hina jákvæðu skilgreiningu um rétt landeigenda o.s.frv. Aðalspurning hv. þingmanns var um alla þá lagabálka sem um þetta gilda, hvort við höfum heildaryfirsýn yfir þá.

Ég get tekið undir það með hv. þingmanni að þetta er orðið mjög flókið kerfi, yfirgripsmikið, margir lagabálkar sem þarf að fjalla um, hvort þeir eru fimm eða sex. Við þurfum kannski að leiða hugann að öllum þeim lögum sem við erum að setja eða samþykkja hér. Við þyrftum kannski að huga að því að fækka þeim. Ég er sammála því að þetta er orðið yfirgripsmikið og flókið og þess vegna kunna verk okkar á Alþingi stundum að stangast á við önnur lög, við sjáumst ekki fyrir.