139. löggjafarþing — 160. fundur,  8. sept. 2011.

vatnalög.

561. mál
[14:08]
Horfa

Frsm. iðnn. (Kristján L. Möller) (Sf) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég get tekið undir það að þetta kerfi er orðið mjög flókið og umsvifamikið. Það er dýrt en ég tek það skýrt fram, eins og hv. þingmaður sagði, að við gerum það ekki á kostnað gæða eða náttúruverndar. En ég hygg að við þurfum að fara að huga að því að einfalda þetta kerfi og gera það fljótvirkara og draga úr kostnaði við það.

Í markmiðsgreininni okkar teljum við upp skipulagslög, lög um mannvirki, lög um náttúruvernd, lög um stjórn vatnamála og svo setjum við sem varnagla önnur lög eins og við á hverju sinni um rétt almennings til vatns og vatnsréttinda landeigenda. Svo bætast kannski fleiri við á þessu þingi þannig að það er að mörgu að hyggja í þessu.

Ég trúi því og treysti að þeir lögfræðingar sem sömdu frumvarpið og þeir lögfræðingar sem hafa unnið með okkur í nefndinni, bæði nefndarritari og lögfræðingur frá ráðuneyti og frá lögfræðistofu úti í bæ, séu búnir að fara í gegnum allt það sem er í frumvarpinu og ekkert af því skarist við önnur lög. Þetta er mjög flókið og yfirgripsmikið, eins og hv. þingmaður gat um, við erum að mörgu leyti sammála hvað það varðar.