139. löggjafarþing — 160. fundur,  8. sept. 2011.

vatnalög.

561. mál
[17:06]
Horfa

Sigurður Ingi Jóhannsson (F):

Virðulegi forseti. Eins og fram hefur komið í ræðum einstakra þingmanna á undan mér þá er þetta mál sem hefur verið til mikillar umræðu og hart hefur verið tekist á um það á síðustu árum. Satt best að segja bjóst maður kannski ekki við því að þetta mál kæmi inn í þingið og væri eins og það er. Það má halda því fram að það sé nánast kraftaverk að allir þingmenn iðnaðarnefndar skuli skrifa upp á þó að vissulega séu nokkrir með fyrirvara á því og hafi skýrt hann fyrr í dag. En þetta er engu að síður sameiginlegt og sést hvað hægt er að gera þegar menn snúa af brautum öfga og eru tilbúnir að nálgast hver annan á skynsamlegan hátt og reyna að leysa málin.

Umræðan um auðlindina vatn hefur verið mjög mikil og á margan hátt er eðlilegt að sú umræða fari fram. En hún hefur líka oft og tíðum verið mjög öfgakennd og sérstaklega þá um nýtingu vatnsauðlindarinnar. Komið hafa upp öfgakennd sjónarmið í báðar áttir, en í seinni tíð þó aðallega í þá átt að vatn sé eingöngu nýtanlegt ef það sé í eigu samfélagsins, þjóðarinnar allrar, jafnvel rætt um þjóðnýtingu á vatni.

Nú er ekki svo að það sé hinn íslenski veruleiki sem við höfum lifað við í ellefu hundruð ár, sá veruleiki er auðvitað allt annar. Þegar við höfum borið okkur saman við önnur lönd höfum við gjarnan litið til Norðurlandanna, og þá ekki síst sú ríkisstjórn sem nú situr og kennir sig við norræna velferð. Í fyrra og árið þar áður, þegar von var á að þessi umræða dytti hér inn, kynnti ég mér nokkuð náið hvernig vatnsveitumálum væri háttað, eignarhaldi á auðlindinni og vatnsveitum, í öðrum löndum.

Ég nefni að í Danmörku, svo að ég eyði ekki öllum tíma mínum í að fara yfir stöðuna í öðrum löndum, eru um 2/3 vatnsveitna sveitarfélaga í eigu einkaaðila og auðlindin sjálf oft og tíðum í eigu einkaaðila eða félaga en ekki endilega sveitarfélaga. Sérstaklega á þetta við um minni vatnsveiturnar en einnig um þó nokkrar stórar vatnsveitur. Þá skyldi maður velta því fyrir sér hvort Danmörk sé svona hræðilega frábrugðin Íslandi en svo er ekki. Við erum gjarnan með regluverk, lagaumhverfi, Dana sem fyrirmynd fyrir okkar lagaverk og eins þá norskar fyrirmyndir og í seinni tíð kannski sænskar líka og finnskar.

Þannig er þetta nú í Danmörku. Þá nálgast menn þetta á annan hátt, óttast sem sagt ekki að vatn, vatnsauðlindin eða veitan, sé í eigu félags eða einkaaðila, heldur setja menn einfaldlega um það ákveðnar reglur hvað sé hægt. Settar eru reglur um hvað vatn megi kosta í stærstu vatnsveitunum sem deila vatni til almennings. Sett er inn ákvæði um auðlindarentu, hvert hún eigi að renna, og annað í þeim dúr. Þannig er tryggt að auðlindarentan renni til samfélagsins en ekkert sé að því að virða eignarrétt félaga eða einstaklinga — blönduð eign sveitarfélaga og einkaaðila á gjarnan við í öllum þessum löndum. Þannig er dregið úr áhættu samfélagsins, sveitarfélagsins, og liðkað fyrir framkvæmdum. Þetta er talað inn í það umhverfi sem hefur kannski verið einna öfgafyllst í sambandi við vatnalögin og í umræðunni upp á síðkastið.

Einhverjir telja líka að hægt sé að einkavæða regnvatnið en það er jafnfráleitt og að þjóðnýta allt vatn. Í þessum málum eins og allflestum öðrum liggur skynsemin einhvers staðar mitt á milli, menn þurfa bara að fara yfir regluverkið til að tryggja að það haldi.

Í frumvarpinu er nálgunin sú, og það kemur ágætlega fram í nefndarálitinu, að lög sem við settum árið 1923, nr. 15, hafi staðist tímans tönn — og er gott dæmi um það að þegar menn vanda til lagasetningar þurfa þeir ekki sífellt að vera að breyta lögum, og það er til mikillar eftirbreytni. Ef við horfum aftur á móti til síðustu ára erum við jafnvel að breyta lögum oftar en einu sinni á sama þinginu eða milli þinga vegna þess einfaldlega að við gefum okkur ekki nægan tíma, vöndum okkur ekki eða vegna þess að inn koma pólitísk sjónarmið svo að menn vilja breyta einhverju, og skiptir þá engu hvort það teljist ekki ráðlegt eða óskynsamlegt. Menn þurfa svo að beygja sig fyrir því að einu ári liðnu.

Lögin frá 1923 hafa verið okkar helsta réttarheimild, eins og fram kemur í nefndarálitinu, og hafa staðist tímans tönn. En það kemur líka fram að á síðustu áratugum hafa orðið miklar samfélagsbreytingar og tækniframfarir. Nýtingarmöguleikar á vatni hafa líka aukist til muna, eins og við höfum verið að ræða, og vægi umhverfisverndar, ekki skal ég gera lítið úr því. Með frumvarpinu var hugmyndin sú að taka úr sambandi vatnalögin frá 2006, sem aldrei hafa tekið gildi, gera nauðsynlegar úrbætur á vatnalögunum frá 1923 en láta þau í raun halda gildi sínu. Sökum þessa eru, eins og fram kemur í nefndarálitinu, ekki lagðar til nema óverulegar efnislegar breytingar á fyrstu fimm köflum laganna þar sem fjallað er um inntak vatnsréttinda sem og helstu meginreglur réttarsviðsins en önnur ákvæði eru einfölduð og færð til nútímahorfs, meðal annars í ljósi breyttra aðstæðna.

Það kemur líka fram að í breytingartillögunum sem nefndin leggur til setur hún inn markmið og þar er fyrst og fremst kveðið á um rétt almennings til nýtingar vatns, greiðan aðgang að nægu og hreinu vatni og vatnsréttindi landeigenda — tryggja það hvernig þau hafa verið um áratugi og jafnvel aldir, að þau haldist áfram. Einnig um samþætt nýtingar- og umhverfissjónarmið á sviði vatnamála og samvinnu stjórnvalda á því sviði, ég ætla aðeins að koma inn á það á eftir. Síðan er talað um að tryggja skynsamlega nýtingu vatnsauðlindarinnar og langtímavernd hennar með fyrirbyggjandi aðgerðum á grundvelli sjálfbærrar þróunar. Allt þetta held ég að sé hið besta mál enda voru í lögunum frá 1923, og þar af leiðandi í núgildandi vatnalögum, engin ákvæði um markmið laga, það tíðkaðist ekki að setja slíkt í lög í þann tíma.

Síðan kemur breytingartillaga við 1. gr. sem nefndin fjallar aðeins um, hún leggur samhliða til þá breytingu að lýsa því yfir í nýjum b-lið 1. gr. að skipulagslög gildi og einnig lög um mannvirki, lög um náttúruvernd, lög um stjórn vatnamála og önnur lög, eins og við á hverju sinni, um rétt almennings til vatns og vatnsréttindi landeigenda.

Ég ætla aðeins að fjalla nánar um þetta en það hafa svo sem fleiri gert hér á undan mér. Ég held að hér séum við komin að sviði sem við þurfum að velta alvarlega fyrir okkur. Þrátt fyrir að við séum að setja eitt og annað í lagatexta, og segjumst vera að einfalda og samþætta nýtingu og auka samvinnu stjórnvalda og allt það, skiljum við það eiginlega eftir óútskýrt hvað gerist þegar vatnalög skarast á við önnur lög eins og til dæmis skipulagslög eða lög um náttúruvernd. Hvað gerist þá? Hver á að skera úr um það og hvernig verður sú vinna? Það skiptir gríðarlegu máli því að tilgangur löggjafans er auðvitað sá að búa til regluverk. Samkvæmt hugmyndum mínum um regluverk á það að vera einfalt og skilvirkt. Menn eiga að vita hvar þeir standa en ekki þurfa að reka sig hver á annars ríkisstofnunarhorn, ef svo má segja, og lenda síðan í karpi. Ef málin heyra svo undir fleiri en einn ráðherra geta orðið veruleg vandræði. Nefndin reynir að minnka núningsfletina með því að taka út ábyrgð umhverfisráðherra á stjórnsýslu vatnalaga en engu að síður verða þessir núningsfletir áfram fyrir hendi.

Við höfum hér á liðnum þingum — á yfirstandandi þingi, því að við erum ekki búin með síðasta þing — verið að fjalla um mál eins og stjórn vatnamála og kræklingarækt, svo að ég nefni tvö mál sem eru ný. Þar hafa hlutir eins og skilgreiningar verið að þvælast fyrir löggjafanum. Í þessum lögum er til að mynda minnst á orðið mannvirki — það var líka í kræklingaræktarlögunum. Svo virðist vera sem þar sé ekki sama skilgreiningin og þar sem fjallað er um mannvirki í lögunum um skipulagslög eða mannvirkjalög. Það er auðvitað ekki nógu gott. Ein skilgreining á einu orði, einu hugtaki, hlýtur að eiga að gilda í öllum lögum.

Í skilgreiningarkaflanum í frumvarpinu, lið 17 í 1. gr., er einnig talað um netlög. Þetta varðar þá réttindi sjávarjarða að einhverju leyti. Ég held að í mismunandi lögum, einum fjórum, fimm eða sex lögum, komi hagsmunir sjávarjarða til greina og það eru alla vega tvær ef ekki þrjár mismunandi útgáfur sem eru notaðar til að skilgreina þann rétt. Þetta er auðvitað ekki nógu gott. Lögin frá 1923 segja okkur að ef við vöndum okkur við verkið getur þetta staðið í áratugi en ef við gerum það ekki lendum við stöðugt í einhverjum núningi og ágreiningi og leiðréttingum, það er verið að stagbæta lög sem verða kannski aldrei góð.

Varðandi einstakar greinar aðrar en þá 1. gr. er í 11. gr. — ég ætla aðeins að finna hvar það er. Það var um aðgangsröð að vatni á landareign. Þá hafa menn sem sagt verið að velta fyrir sér hvernig hún á að vera og mér sýnist að nefndin endi á því að hafa hana óbreytta. Það komu inn ábendingar frá sveitarfélögunum þess efnis að þar þyrftu vatnsveitur sveitarfélaga eða samfélaga að hafa hærri aðgangsröð, en þarna er fyrst og fremst verið að tala um yfirborðsvatn sem ekki er nýtanlegt til vatnsveitna en það er aftur á móti í 22. gr. í frumvarpinu. Í nefndarálitinu tekur nefndin á því og tryggir rétt sveitarstjórnanna. Ég held að þar sé forgangur vatnsveitna mestur á eftir eðlilegum búþörfum þeirra sem eiga vatnsauðlindina, vatnslindina, aðganginn að vatninu, og geta nýtt það til eigin þarfa en síðan sé vatnsveitan með fullan rétt til að taka það vatn og með samkomulagi gengur það í allflestum tilvikum prýðilega.

Ef við síðan settum einhverjar sambærilegar reglur og ég var tala hér um í danska kerfinu þurfa menn ekki að óttast að það sé neitt sem heitir einkavæðing vatns eða neitt slíkt. Það er bara fullkomlega eðlileg stjórnsýsla í landi sem kýs að vera með blandað hagkerfi þar sem sjónarmið bæði einstaklinga og félaga séu jöfn, eða að möguleiki sé á að einstaklingurinn geti virkjað athafnaþörf sína en einnig sé hægt að vinna á samfélagslegum grunni og svo sé hægt að blanda þessu saman. Okkur hefur gengið það ágætlega á liðnum áratugum sem og Norðurlöndunum.

Ef við höldum aðeins áfram með þessar einstöku greinar þá nefndi ég í andsvörum mínum við tvo síðustu ræðumenn þá afstöðu nefndarinnar að hafa almenna tilvísun í markmiðsgrein frumvarpsins þar sem samhliða þessum lögum giltu einnig önnur lög. En hér segir nefndin, með leyfi forseta, á bls. 5:

„Nefndin telur því ólíklegt að óvissa verði um hlutverk sveitarstjórnar annars vegar og Orkustofnunar hins vegar þar sem Orkustofnun styðst við aðrar réttarheimildir við útgáfu leyfa. Byggingarleyfi á grundvelli mannvirkjalaga lýtur að því hvort mannvirkið uppfylli hönnunarkröfur og forsendur.“

Þessar forsendur eru jú skipulag og á þeim byggjast framkvæmdaleyfisveitingar sem og byggingarleyfi þannig að ég er efins um að þetta sé jafneinfalt og hér er sagt. Þetta atriði á við þó nokkrar greinar og í umsögn Sambands íslenskra sveitarfélaga frá því fyrr í vor bentu þeir á þó nokkrar greinar hvað þetta varðar, 54., 55., 56., 78. og 79. gr. sérstaklega, og það hefur verið fjallað svolítið um þær greinar hér. En mér hefur sýnst að nefndin hafi ekki komið nægilega til móts við þessar umsagnir og ég tek undir að þarna gæti það orðið mikill vandi fyrir dómstóla og úrskurðaraðila að úrskurða hvað sé rétt og hvernig eigi að fara að einstökum lögum ef þeim ber ekki saman. Ég vil því taka undir beiðni hv. þm. Ragnheiðar Ríkharðsdóttur hér fyrr í ræðunni og óska eftir því að málinu verði vísað aftur til iðnaðarnefndar milli 2. og 3. umr. til að fjalla akkúrat um þetta, og eðlilegast væri að kalla í það minnsta til gesti frá sveitarfélögunum til að fara aðeins yfir þessa hluti og eðlilegt að þar kæmu menn frá ráðuneytinu líka. Ég vil einnig taka undir tillögur hv. þm. Gunnars Braga Sveinssonar, og reyndar kom það fram hjá fleiri þingmönnum, að við reglugerðarsmíðina verði haft raunverulegt samráð og samvinna við þá um að taka á þessu.

Það var fleira áhugavert sem ég vildi nefna í lögum sem voru sett 2008 um frístundahús. Sveitarstjórnarmenn kölluðu þau í gríni lög um réttindi frístundahúsaeigenda og skyldur allra annarra, en þau hafa verið færð til betri vegar. Þar var þeirri athugasemd til að mynda ekki svarað hvort hægt væri að koma því þannig á að hagsmunafélag frístundahúsaeigenda gæti farið með hlutverk vatnsveitufélags. Ég held að það væri mjög skynsamlegt, það er svona praktískt, og hlutirnir hafa í raun þróast á þann veg að það gæti verið afar skynsamleg leið. Hagsmunafélögin hafa mörg hver tekið þessum lagaramma fegins hendi og nýtt hann skynsamlega.

Nú sé ég að tími minn er búinn (Forseti hringir.) en í trausti þess að málið fari til nefndar á milli 2. og 3. umr., (Forseti hringir.) og tek undir þær yfirlýsingar annarra að það sé gott að hér sé komin sátt og samlyndi, (Forseti hringir.) mun ég ekki hafa frekari orð um þetta í bili.