139. löggjafarþing — 160. fundur,  8. sept. 2011.

Stjórnarráð Íslands.

674. mál
[21:35]
Horfa

Frsm. 1. minni hluta allshn. (Birgir Ármannsson) (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Eins og ég kom inn á, í lok ræðu minnar held ég, efast ég ekki um að þeir sem að frumvarpinu standa, þá einkum hæstv. forsætisráðherra sem er flutningsmaður málsins, telji að með þessum breytingum náist fram aukinn sveigjanleiki, þ.e. sveigjanleiki fyrir handhafa framkvæmdarvaldsins, sveigjanleiki fyrir forsætisráðherra til að skipuleggja ráðuneyti eftir sínu höfði. Ég tók jafnframt fram að ríkisstjórn sem hefði meiri hluta á þingi gæti auðvitað að núgildandi reglum komið svona breytingum í gegnum þingið, en það er hins vegar þægilegra og kannski meiri sveigjanleiki fólginn í því að sleppa við hina formbundnu, lýðræðislegu og opnu málsmeðferð sem fer fram á Alþingi.