139. löggjafarþing — 160. fundur,  8. sept. 2011.

Stjórnarráð Íslands.

674. mál
[23:08]
Horfa

Þór Saari (Hr):

Frú forseti. Ég mun ekki tala mjög ríflega um þetta mál. Það hefur verið reifað allvel af formanni allsherjarnefndar, hv. þm. Róberti Marshall, og mig langar að hefja mál mitt á því að þakka honum og öðrum nefndarmönnum fyrir mjög gott samstarf í nefndinni. Það hefur verið ánægjulegt að vinna þetta mál þó að það hafi tekið langan tíma. Þetta er stórt og flókið mál og það kom að mínu mati illa unnið inn í þingið en hefur tekið miklum og góðum breytingum í meðförum nefndarinnar og lítur mun betur út núna, þ.e. ef þær breytingartillögur sem hafa verið lagðar fram ná fram að ganga.

Ég á ættir að rekja austur á Síðu. Ef maður hittir þar fyrir fullorðið fólk sem er fætt og uppalið í þeirri sveit talar það oft um söguna fyrir og eftir eld, eins og sagt er, og á þá við Skaftárelda. Það eru um 230 ár frá því að Skaftáreldar voru og enn þann dag í dag er talað um söguna fyrir og eftir eld. Þetta frumvarp er afleiðing hrunsins og það mætti segja mér að afkomendur okkar muni tala eftir 200 ár um tímabilið á Íslandi fyrir og eftir hrun. Við erum ekki komin nema að litlu leyti held ég í gegnum þetta hrun og afleiðingar þess og það mun setja mark sitt á Íslandssöguna um langa framtíð.

Þetta frumvarp er tilraun og kannski ekki eingöngu tilraun heldur er það til bóta fyrir þá stjórnsýslu sem var hér við lýði og var í rauninni mjög broguð og leiddi m.a. til hrunsins. Þó að frumvarpið gangi ekki nægilega langt get ég samt ekki neitað því að breytingarnar sem það boðar eru talsvert miklar, jafnvel róttækar, og munu leiða til betra stjórnarfars á Íslandi, leyfi ég mér að vona.

Ég hef í störfum mínum í allsherjarnefnd og með aðkomu að þessu frumvarpi rekið mig á það að frumvarpið vísar ítrekað í einar fjórar skýrslur, þ.e. skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis, skýrslu þingmannanefndar Alþingis um skýrslu rannsóknarnefndarinnar, sem var samþykkt 63:0 í þinginu, skýrslu starfshóps forsætisráðherra um breytingar á Stjórnarráðinu og svo skýrsluna sem ber nafnið Samhent stjórnsýsla um ítarlegri breytingar á lægri þáttum stjórnsýslunnar. Það sem ég rak mig hins vegar á, og því miður verð ég að segja, var að við lestur þessara skýrslna og við skoðun á þeim tilvísunum sem eru í frumvarpinu í skýrslurnar kom í ljós að í fjölmörgum tilfellum virtist sem hluti af þessu frumvarpi væri saminn beinlínis til þess að komast í kringum sumar niðurstöður þessara skýrslna. Það sem mér var því kleift og skylt að gera var að taka saman þriggja blaðsíðna gagn um það mál þar sem ég listaði þær breytingar sem ég taldi að vantaði í frumvarpið miðað við það sem lagt var til í skýrslunum. Það plagg lagði ég svo fyrir allsherjarnefnd og ræddi við formann nefndarinnar og fleiri. Ég verð að segja að þeim tillögum var vel tekið. Formaður nefndarinnar ásamt meiri hlutanum var fús til að nota tíma nefndarinnar í að ræða þær ítarlega og málefnalega og samstarfið í nefndinni var að því leyti gott.

Ég lagði fram fjölmargar breytingartillögur. Sumar þeirra hafa sett mark á breytingartillögur meiri hlutans, sjálfur hef ég svo lagt fram tvær til viðbótar til ítrekunar á tveimur atriðum. Breytingartillögurnar frá meiri hlutanum eru í 18 töluliðum og allar til mikilla bóta. Þær skipta að mínu viti svo miklu máli að það er nánast grundvallaratriði að þær nái í gegn því að öðru leyti, ef frumvarpið fer í gegn án þeirra, held ég að það sé jafnvel verr af stað farið en heima setið.

Ég mun ekki tæpa á öllum þeim atriðum sem ég lagði til að yrði breytt. Ég hef rætt það við formann nefndarinnar og varaformann og ég hef rætt það á fundi forsætisnefndar Alþingis að það sé mjög slæmt að reka sig á að frumvarp eins og þetta, sem sagt er byggja á einhverjum skýrslum, gerir það svo í rauninni ekki nema að hluta. Ef tilfinning mín um að frumvarpið sé skrifað í kringum niðurstöður þessara skýrslna er rétt tel ég það vera mjög alvarlegt mál. Það styrkir þá umræðu sem hefur t.d. verið í drögum að frumvarpi til nýrrar stjórnarskrár, að frumvarpssmíð færist í auknum mæli inn á þingið, því að allsherjarnefnd hefur þurft að eyða alveg ótrúlega löngum tíma í að laga þetta frumvarp og því hefði verið betur komið ef það hefði einfaldlega verið samið af nefndinni eða á nefndasviði þingsins. Þá hefðu menn vitað að hverju þeir gengju strax í upphafi. Þetta held ég að séu hugmyndir sem Alþingi verði að skoða í auknum mæli.

Það sama á við um frumvarp til upplýsingalaga sem liggur fyrir og næst vonandi að afgreiða fyrir lok þessa sumarstubbs. Það hefur tekið miklum breytingum af því að það kom mjög brogað úr forsætisráðuneytinu og er eins og þetta frumvarp dæmi um að ef til vill sé alls ekki heppileg aðferð að semja frumvarp um þessi atriði stjórnskipanarinnar og stjórnsýslunnar á skrifstofum forsætisráðuneytisins. Þau þurfa að vera samin annars staðar og af öðrum. Ég vonast til þess að þingmenn veiti því athygli og beiti sér fyrir annars konar vinnubrögðum í framtíðinni varðandi svo mikilvæg mál.

Það eru tvær greinar sem mig langar að nota sem dæmi um það sem ég hef fundið athugavert við frumvarpið til að benda á að þar hafi verið farið fram hjá niðurstöðum þessara skýrslna. Í greinargerð með frumvarpinu eru nokkrir töluliðir úr skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis. Þar segir orðrétt, með leyfi forseta:

„Mikilvægt er að mál sem koma til umræðu og ráðið er til lykta í innra starfi ríkisstjórnarinnar komi fram með skýrum hætti í formlegum fundargerðum hennar enda er þar um að ræða einhverjar mikilvægustu ákvarðanir sem teknar eru fyrir hönd þjóðarinnar […]

Í ljósi reglna sem gilda um ábyrgð ráðherra á stjórnarmálefnum, bendir nefndin á að máli geti skipt að haga ritun fundargerða með þeim hætti að í ljós sé leitt hverjir hafa með ráðum, fortölum, atkvæði eða á annan hátt stuðlað að hverri þeirri athöfn sem tekin er fyrir á ráðherrafundi […]

Að því marki sem samráð og fundir milli oddvita ríkisstjórnar koma í reynd í stað þess að fjallað sé um mál á fundum ríkisstjórnar kann að vera rétt að huga að því að setja reglur um skráningu þess sem fram fer við slíkt samráð […]

Sama á við um fundi þar sem oddvitar ríkisstjórnarinnar koma sameiginlega fram gagnvart aðilum úr stjórnkerfinu eða utanaðkomandi og þeim eru sem fulltrúum ríkisstjórnar veittar upplýsingar eða kynnt málefni sem þurfa að koma til úrlausnar innan stjórnsýslunnar …“

Í frumvarpinu hefði átt að taka tillit til þessara athugasemda í 7. gr. þess en var ekki gert nema að mjög litlu leyti. Þetta eru gríðarlega mikilvæg atriði og í breytingartillögum meiri hlutans eru viðbætur við 7. gr. þar sem skerpt er á orðalagi og líka í 6. gr. Þar finnst mér ekki vera nægilega langt gengið og flyt ég því breytingartillögu við 7. gr. sem hljóðar á þessa leið, með leyfi forseta:

„Í fundargerðir ríkisstjórnar skulu færðar niðurstöður, skýrt frá frásögnum og tilkynningum ráðherra auk þess sem greint skal frá umræðuefni ef ekki er á því formleg niðurstaða. Haga skal fundargerð með þeim hætti að í ljós sé leitt hverjir hafa með ráðum, fortölum, atkvæði eða á annan hátt stuðlað að hverju því sem tekið er fyrir á ríkisstjórnarfundi. Bókuð sé afstaða hvers ráðherra til mála.“

Ég tel mjög brýnt að þetta ákvæði komi inn í frumvarpið því að í skýrslu þingmannanefndar Alþingis sem var samþykkt hér á fundi 28. september 2010, 63:0, segir orðrétt, með leyfi forseta:

„[F]undargerðir ríkisstjórnar verði skráðar með skýrum hætti og þær birtar opinberlega. […] [S]amhliða fundargerðabók ríkisstjórnarfunda verði haldin sérstök trúnaðarmálabók sem notuð sé þegar rætt er um viðkvæm málefni ríkisins eða önnur mál sem lúta trúnaði.“

Þar segir líka:

„Nefndin telur að verulega skorti á að starfshættir innan ríkisstjórnar, ráðuneyta og stofnana uppfylli nútímakröfur um formlega og opna stjórnsýslu“.

Það er greinilegt af þeim fjórum skýrslum sem þetta frumvarp byggir á að rík áhersla er lögð á róttækar breytingar og ég tel rétt að auka enn við þær breytingartillögur sem fram koma í tillögum meiri hlutans vegna þess að þær ganga ekki nógu langt.

Í 11. gr. frumvarpsins, sem samkvæmt breytingartillögu meiri hlutans verður nú felld út og ný 11. gr. kemur inn, segir orðrétt:

„Færa skal skrá um samskipti og alla fundi milli ráðuneyta Stjórnarráðsins sem og við aðila utan þess.“

Þetta er einnig gríðarleg mikilvæg breyting því að hingað til hefur ekki verið neinn rekjanleiki á þessum samskiptum í Stjórnarráðinu og eitt af því sem bent er á í skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis að sé mikill galli í stjórnskipaninni. Í greinargerð með frumvarpinu segir m.a. um þetta:

„Brýnt er að samdar verði samræmdar reglur um skráningu munnlegra upplýsinga um samskipti innan Stjórnarráðsins við önnur stjórnvöld, einkaaðila og stjórnvöld annarra ríkja …“

Hér er enn verið að hnykkja á því að það þurfi að skrá niður þessi samskipti þannig að þau liggi fyrir og séu opinber.

Það eru fleiri breytingartillögur sem ég hefði viljað sjá við þetta frumvarp og þar sem þær náðu ekki fram að ganga höfum við í Hreyfingunni líka lagt til breytingu við 20. gr. frumvarpsins og leggjum til að við hana bætist ný málsgrein svohljóðandi, með leyfi forseta:

„Ráðuneytisstjórum er skylt að mótmæla eða koma að athugasemdum telji þeir gjörðir ráðherra ekki samræmast lögum eða vönduðum stjórnsýsluháttum. Samsvarandi skylda hvílir einnig á skrifstofustjórum óháð afstöðu ráðuneytisstjóra. Mótmæli og athugasemdir af þessum toga ber að tilkynna til umboðsmanns Alþingis.“

Sjálfur starfaði ég í stjórnsýslunni í tíu ár í tveimur stofnunum, Seðlabanka Íslands í fimm ár og Lánasýslu ríkisins í um fimm ár, og varð vitni að því þegar fagleg sjónarmið og góð og gild stjórnsýsluviðmið voru látin lúta í lægra haldi vegna ákvæða og valdboðs ráðherra. Það er ekki til siðs í íslenskri stjórnsýslu að koma á framfæri faglegum mótmælum nokkurs staðar heldur fara menn bara inn á skrifstofuna sína og loka að sér og bera harm sinn í hljóði.

Við höfum mýmörg dæmi þess að háttsettir einstaklingar innan stjórnsýslunnar á Íslandi hafi látið af störfum þegjandi og hljóðalaust og neitað að upplýsa hvers vegna. Að mínu mati er stjórnsýsla til fyrir almenning í landinu og almenningi ber að hafa skýlausan rétt til að vita hvað fer þar fram og hvers vegna, eins og í slíkum tilfellum þegar fólk segir af sér vegna þess að það er mjög óánægt með viðbrögð ráðherra. Eitt eldra dæmi um slíkt er þegar formaður einkavæðingarnefndar sagði af sér og upplýsti ekki af hverju. Annað dæmi er þegar núverandi hv. þm. Tryggvi Þór Herbertsson sagði af sér sem aðstoðarmaður í forsætisráðuneytinu í hruninu. Það var aldrei upplýst nákvæmlega hverju hann var mótfallinn. Við höfum dæmi þegar fyrrverandi ráðuneytisstjóri í fjármálaráðuneytinu, Indriði H. Þorláksson, sagði af sér nánast fyrirvaralaust án þess að upplýst væri af hverju.

Þegar slíkt gerist fara af stað alls konar kjaftasögur og þess háttar um hvað sé í gangi innan Stjórnarráðsins. Þetta þarf einfaldlega að stöðva. Það er ekkert athugavert við það að ráðuneytisstjóri eða skrifstofustjóri sé ósammála yfirmanni sínum. Það er ekkert athugavert við að undirmenn á vinnustað séu ósammála yfirmanni sínum. Það er eðlilegt að takast á um atriði og ef menn eru ekki sammála ber að sjálfsögðu að upplýsa um það. Stjórnsýslan er, eins og ég segi, til fyrir almenning í landinu en hún er ekki til fyrir Stjórnarráðið sjálft og ekki til fyrir stjórnmálamennina eða stjórnmálaflokkana.

Eins og ég sagði áðan fagna ég því að þær breytingartillögur sem eru hér í 18 töluliðum eru fram komnar þó að ég vilji viðbætur við þær. Mig langar að hvetja þingheim allan eindregið til að styðja þær breytingartillögur burt séð frá afstöðu manna til frumvarpsins í heild vegna þess að ef frumvarpið fer í gegn án þessara breytingartillagna þá er, eins og ég sagði áðan, sennilega verr af stað farið en heima setið.

Mig langar líka að endurtaka í ræðu minni þá tillögu eða þá hugmynd sem ég viðraði áðan við hv. þm. Vigdísi Hauksdóttur, að Alþingi skoði það af alvöru að slík mál og svona frumvörp séu unnin með öðrum hætti en gert er í dag og gert var með þetta mál. Þetta mál er gríðarlega mikilvægt. Það skiptir miklu máli að það sé pólitísk samstaða eins og hægt er um svona mál. Ég sé fyrir mér að með tvöföldum ræðutíma þingmanna í þessu máli verði einfaldlega talað út í hið óendanlega um það og jafnvel svo lengi að það nái ekki að klárast fyrir lok þingfundar á fimmtudag í næstu viku sem á að vera síðasti dagur þingsins.

Hér bíður frumvarp til upplýsingalaga og það er mjög mikilvægt að það frumvarp komist í gegn á þessu þingi líka því að það tekur á gríðarlega mörgum af þeim málum sem ollu hruninu hér. Ef það frumvarp fer ekki í gegn heldur erum við nánast í sömu sporum og við vorum fyrir hrun. Mig langar því að hvetja stjórnarandstöðuna sérstaklega til þess að sinna þessum sjónarmiðum og greiða alla vega fyrir því að þessi tvö mál fái lúkningu hér á þingi hvað svo sem verður um önnur mál. Það hefur lengi verið kallað eftir breytingum á Stjórnarráðinu og breytingum á upplýsingalögum og það er löngu orðið tímabært að þær breytingar nái fram að ganga. Það er mjög nauðsynlegt fyrir þessar breytingar og eins í frumvarpi til upplýsingalaga, sem hefur einnig tekið miklum breytingum í meðförum nefndarinnar, að málin klárist fyrir þinglok.

Að öðru leyti ætla ég ekki að hafa fleiri orð um þessi mál önnur en þau að þakka aftur fyrir það mikla og góða samstarf sem hefur verið í allsherjarnefnd og er í rauninni til fyrirmyndar um hvernig hægt er að vinna mál á þingi.