139. löggjafarþing — 160. fundur,  8. sept. 2011.

Stjórnarráð Íslands.

674. mál
[23:31]
Horfa

Frsm. 2. minni hluta allshn. (Vigdís Hauksdóttir) (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Allar umræður leiða greinilega til góðs því að nú er hv. þm. Þór Saari farinn að tala um að styrkja hér löggjafann. Smám saman eru að opnast augu fólks fyrir því að við svo verður ekki búið og afar athyglisvert var að heyra þetta frá þingmanninum.

Þetta var útúrdúr og nú langar mig til að fara út í aðra sálma. Hér held ég á nefndaráliti meiri hluta allsherjarnefndar. Hvað segir þingmaðurinn um að af sex flutningsmönnum þessa nefndarálits eru þrír með fyrirvara, þau hv. þm. Álfheiður Ingadóttir, Valgerður Bjarnadóttir og Þór Saari, sá þingmaður sem er hér í andsvari við mig? Þeir sem skrifa undir álitið fyrirvaralaust eru hv. þm. Róbert Marshall, hv. þm. Þráinn Bertelsson og hv. þm. Mörður Árnason. (Forseti hringir.) Er ekki eitthvað bogið við þetta þar sem það er meiri hlutinn sem leggur þetta fram?