139. löggjafarþing — 161. fundur,  12. sept. 2011.

Stjórnarráð Íslands.

674. mál
[16:36]
Horfa

Ásbjörn Óttarsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir ræðuna. Það er eitt sem ég tók eftir sem hv. þingmaður nefndi í ræðu sinni og ég hef oft tekið upp í ræðustól á Alþingi, það eru vinnubrögðin í kringum fjárlögin. Við þekkjum það báðir sem höfum starfað töluvert við sveitarstjórnarmál og ég hef verið mjög hugsi yfir því hvernig … (MÁ: Líka göngur og réttir í Skagafirði, það eru góð mál.)

(Forseti (ÞBack): Gefa ræðumanni hljóð.)

… umræðan um fjárlögin fer oft fram, þ.e. (Gripið fram í.) eins og hv. þingmaður benti réttilega á eru í fyrsta lagi samþykkt fjárlög, síðan eru samþykkt fjáraukalög á haustin þar sem oft er um að ræða tuga milljarða tilfærslur á milli liða og þar fram eftir götunum. Nú erum við einmitt að fara að setja sveitarstjórnarlög þar sem væntanlega verður samþykkt á þessu þingi að menn verði að sækja sérstakar heimildir og sveitarfélögunum verður gert að segja með hvaða hætti fært er á milli fjárlagaliða hjá þeim.

Mig langar að spyrja hv. þingmann hvort hann sjái fyrir sér að þetta muni breytast við samþykkt þessa frumvarps því að ég tel (Forseti hringir.) að þetta sé eitt af stóru málunum (Forseti hringir.) sem þarf að laga í meðförum þingsins.