139. löggjafarþing — 161. fundur,  12. sept. 2011.

Stjórnarráð Íslands.

674. mál
[18:06]
Horfa

Eygló Harðardóttir (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir andsvarið. Ég held að í ræðu minni hafi ég komið aðeins inn á það í hverju ég teldi að komið væri til móts við ábendingar okkar í þingmannanefndinni, t.d. hvað varðar skýrar reglur um skráningu fundargerða, hvaða málefni þurfi að taka upp innan ríkisstjórnarinnar, hvað varðar sjálfstæðar stofnanir og síðan sérstaklega hvað varðar einmitt oddvitaræðið sem við höfum töluverðar áhyggjur af í þingmannanefndinni. Ég tel að það væri í rauninni hægt að setja ákveðinn strúktúr utan um það samtal sem þarf að fara fram á milli forustumanna í ríkisstjórn með reglum sem væri hægt að setja varðandi ráðherranefndina sjálfa þannig að samstarfið eða samvinnan milli oddvitanna yrði innan þessara ráðherranefnda og þær ákvarðanir sem væru teknar þar yrði að taka formlega upp — eins og kemur fram í tillögunum — innan ríkisstjórnar.

Hins vegar held ég að það verði alltaf mjög erfitt fyrir okkur að koma í veg fyrir að menn tali óformlega saman en menn eiga ekki að geta tekið ákvarðanir sem varða stefnumörkun og stjórn landsins án þess að það sé skráð og síðan tekið formlega upp á vegum ríkisstjórnar.