139. löggjafarþing — 161. fundur,  12. sept. 2011.

Stjórnarráð Íslands.

674. mál
[21:11]
Horfa

Ásmundur Einar Daðason (F) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir um margt ágæta ræðu. Það sem mig langaði að velta upp við hv. þingmann og kom raunar fram í máli hans og annarra sem hér hafa talað og reyndar líka ítrekað við 1. umr. málsins, enda var sú umræða mjög löng, er sú þróun sem verður með þessu frumvarpi til aukinnar miðstýringar eins og hv. þingmaður kom inn á. Það er einmitt gagnrýnin sem hefur komið fram á þetta frumvarp, ekki einungis frá stjórnarandstöðunni því að tveir hæstv. ráðherrar lýstu m.a. skoðun sinni á þessari miðstýringu við 1. umr. þess. Hv. þm. Atli Gíslason, formaður þingmannanefndarinnar, lýsti einnig þeirri skoðun sinni að frumvarpið væri ekki í takt við þingmannanefndina.

Nú langar mig að spyrja hv. þm. Ólöfu Nordal hvaða þættir í þessu frumvarpi séu jákvæðir og hvort hún telji með einhverjum hætti hægt að afgreiða hluta úr frumvarpinu (Forseti hringir.) þar sem hin stóra mynd er miðstýringaráráttan í því eða (Forseti hringir.) hvort þurfi að vinna það allt frá grunni.