139. löggjafarþing — 161. fundur,  12. sept. 2011.

Stjórnarráð Íslands.

674. mál
[23:42]
Horfa

Ragnheiður E. Árnadóttir (S) (um fundarstjórn):

Virðulegi forseti. Nú er kominn nýr hæstv. forseti í stólinn og ætla ég því að gera aðra tilraun til að fá fram úrskurð, niðurstöðu eða álit hæstv. forseta á því hversu lengi hún telji að þessi þingfundur eigi að standa.

Eins og margoft hefur komið fram voru greidd atkvæði um lengdan þingfund í dag. Nú eru einungis eftir 16 mínútur af þessum degi, ef mér reiknast rétt til, þannig að ég óska eftir því við hæstv. forseta að hann segi okkur, í fullri vinsemd, hversu lengi hann hyggist láta þennan fund standa. Ég tek undir með þeim sem hér hafa talað á undan mér að auðvitað er enginn bragur á því að vera að ræða þetta mál fram á nótt og fremja þá einhver myrkraverk í leiðinni, af því að það er myrkur — ég ætla engum að vera að fremja annars konar myrkraverk. (Forseti hringir.) En það er ekki boðlegt og (Forseti hringir.) við þurfum að minnsta kosti, (Forseti hringir.) frú forseti, að fá að vita hversu lengi er ætlast til að við ræðum þetta mál í dag.